lau 02. október 2021 08:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ásakanir um kynþáttafordóma - Völlurinn fullur af krökkum
Mynd: Getty Images
Glen Kamara, leikmaður Rangers í Skotlandi, varð fyrir kynþáttafordómum í leik gegn Slavia Prag á síðasta tímabili.

Ondrej Kudela, varnarmaður Slavia Prag, var úrskurðaður í tíu leikja bann hjá UEFA fyrir kynþáttafordóma í garð Kamara. Kudela neitaði sök.

Rangers mætti aftur til Tékklands í gær til að spila við Sparta Prag - nágranna Slavia - í Evrópudeildinni.

Kamara spilaði leikinn og hann fékk að heyra það úr stúkunni. Leikurinn átti að vera á bak við luktar dyr eftir að stuðningsmenn Sparta gerðust sekir um kynþáttafordóma í garð Aurelien Tchouameni, leikmanns Mónakó, í sumar. Sparta Prag fékk leyfi til þess að hafa 10,000 börn undir 14 ára á vellinum. Það fengu líka nokkrir fullorðnir að fylgja börnunum á leikinn.

Það fór ekki vel því viðstaddir bauluðu á Kamara í hvert skipti sem hann snerti boltann áður en hann var rekinn af velli á 74. mínútu.

Steven Gerrard, þjálfari Rangers, gagnrýndi UEFA eftir leik fyrir að refsa Sparta Prag ekki nægilega mikið. Það átti að spila leikinn á bak við luktar dyr en það var ekki gert. Lögmaður Kamara gagnrýndi einnig UEFA. „Í kvöld sást það enn og aftur að í Prag er gríðarlegt vandamál þegar kemur að fordómum í garð þeldökkra einstaklinga. Eins og vanalega er UEFA hvergi sjáanlegt."

Sparta Prag sendi frá sér yfirlýsingu varðandi málið. Tékkneska félagið segir að það sé verið að ráðast á saklaus börn með þessum ásökunum. „Hættið að ráðast á börnin okkar!"

Það er ótrúlegt að árið 2021 séu kynþáttafordómar enn vandamál, í fótbolta og í samfélaginu. Burtu með fordóma.


Athugasemdir
banner
banner
banner