Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 02. nóvember 2020 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Griezmann: Komið að mér að stíga upp
Barcelona borgaði 120 milljónir evra fyrir Griezmann í fyrra. Hann er goðsögn hjá Atletico Madrid og skoraði 133 mörk í 257 leikjum á tíma sínum hjá félaginu.
Barcelona borgaði 120 milljónir evra fyrir Griezmann í fyrra. Hann er goðsögn hjá Atletico Madrid og skoraði 133 mörk í 257 leikjum á tíma sínum hjá félaginu.
Mynd: Getty Images
Barcelona hefur farið illa af stað í spænsku deildinni undir stjórn Ronald Koeman og gerði liðið jafntefli gegn Alaves um helgina.

Það var fjórði deildarleikurinn í röð sem Barca spilar án þess að sigra. Liðið er aðeins búið að ná í 8 stig úr 6 fyrstu leikjum tímabilsins.

Antoine Griezmann var afar svekktur eftir jafnteflið gegn Alaves. Þar lentu Börsungar undir í fyrri hálfleik og lágu í sókn allan seinni hálfleikinn án þess að takast að snúa stöðunni við. Lokatölur urðu 1-1.

Griezmann viðurkennir sína eigin sök í slæmu gengi Barca og segist þurfa að vinna í að nýta færin sín betur.

„Við erum mjög reiðir því við virkilega vildum ná í þrjú stig. Það er ljóst að við þurfum að bæta margt við okkar leik. Við erum að klúðra alltof mörgum færum og ég fer þar fremstur í flokki, en tímabilið er bara nýbyrjað og ég veit að við munum snúa þessu við," sagði Griezmann.

„Liðinu vantar mörk og það er komið að mér að stíga upp. Ég verð að bæta markaskorunina."

Griezmann er 29 ára gamall og hefur gert 16 mörk í 55 leikjum frá komu sinni til Barcelona. Hann er aðeins kominn með eitt mark eftir sjö leiki á nýju tímabili.
Athugasemdir
banner