banner
   mið 02. nóvember 2022 09:53
Elvar Geir Magnússon
Farsakennd atburðarás í gær - Stukku á milli allra sæta riðilsins
Það skiptust á skin og skúrir hjá Rúben Amorim þjálfara Sporting.
Það skiptust á skin og skúrir hjá Rúben Amorim þjálfara Sporting.
Mynd: EPA
Svona var lokastaða riðilsins.
Svona var lokastaða riðilsins.
Mynd: BBC
Pierre-Emile Höjbjerg skoraði fyrir Tottenham í uppbótartíma.
Pierre-Emile Höjbjerg skoraði fyrir Tottenham í uppbótartíma.
Mynd: EPA
Spennan í D-riðli Meistaradeildarinnar, riðli Tottenham, var með hreinum ólíkindum og atburðarásin í lokaumferðinni í gær hreinlega farsakennd. Staðan í riðlinum breyttist stöðugt og úr varð rússíbanaferð fyrir stuðningsmenn liðanna.

Portúgalska liðið Sporting Lissabon flakkaði á milli allra fjögurra sæta riðilsins yfir kvöldið en það tók á móti Eintracht Frankfurt á sama tíma og Tottenham lék gegn Marseille í Frakklandi.

Áður en leikirnir voru flautaðir á var Sporting í öðru sætinu, í hálfleik var liðið í toppsætinu. Þegar flautað var til leiksloka í Portúgal var liðið í fjórða og neðsta sæti, á leið út úr Evrópu.

Sigurmark Tottenham í uppbótartíma gerði það svo að verkum að Sporting endaði í þriðja sætinu og færist því niður í Evrópudeildina.

Svona var atburðarásin í gær:

Fyrir leikina: 1. Tottenham, 2. Sporting, 3. Frankfurt, 4. Marseille.

39. mínúta: Sporting kemst í 1-0 gegn Frankfurt og fer upp í 1. sætið, Tottenham færist niður í 2. sæti.

45. mínúta: Marseille kemst í 1-0 gegn Tottenham og kemst skyndilega upp í 2. sætið. Tottenham færist niður í 3. sæti.

54. mínúta: Tottenham jafnar í 1-1 og er á leið áfram í 16-liða úrslitin með Sporting.

62. mínúta: Frankfurt jafnar í 1-1 gegn Sporting. Tottenham og Sporting eru enn á leið áfram.

72. mínúta: Frankfurt kemst yfir og stekkur upp í 1. sætið. Tottenham er í 2. sæti en Sporting er á leið út úr Evrópukeppnum.

95. mínúta: Tottenham skorar flautumark og vinnur 2-1 útisigur í Marseille! Tottenham vinnur riðilinn og Frankfurt fer með í 16-liða úrslitin í gegnum 2. sætið. Sportin endar í 3. sæti og fer í Evrópudeildina. Marseille er úr leik.
Athugasemdir
banner
banner