Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 02. nóvember 2022 09:10
Brynjar Ingi Erluson
Lán í óláni að Viktor meiddist - „Leikmenn sem áttu að vera máttarstólpar voru ekki að standa sig“
Eyþór Aron Wöhler
Eyþór Aron Wöhler
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Viktor Jónsson meiddist og kom því Eyþór inn í liðið fyrir hann
Viktor Jónsson meiddist og kom því Eyþór inn í liðið fyrir hann
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ármann Smári Björnsson hjálpaði Eyþóri
Ármann Smári Björnsson hjálpaði Eyþóri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyþór Aron Wöhler, nýr framherji Breiðabliks, fór yfir tímabilið sem hann átti með ÍA. Hann var ánægður með eigin frammistöðu en segir það auðvitað súrt að falla.

ÍA hafnaði í neðsta sæti eftir fyrstu 22 umferðir Bestu deildarinnar en þegar deildinni var skipt í tvennt þá kom liðið sér í ágætis stöðu og var nálægt því að bjarga sér frá falli.

Möguleikinn var hins vegar svo gott sem úti eftir að liðið gerði 2-2 jafntefli við Leikni. Fyrir lokaumferðina gat ÍA jafnað FH að stigum en hefði þurft að vinna með tíu mörkum til að halda sér uppi.

Það var margt sem fór úrskeiðis á tímabilinu en Eyþór segir að ákveðnir leikmenn sem voru fengnir inn skiluðu ekki sínu; leikmenn sem áttu að vera máttarstólpar í liðinu.

„Úrslitin voru ekki okkur í hag og það var ekki ætlunin. Margt sem mátti fara betur á tímabili. Mikið af óhöppum sem við lendum í á miðju tímabili. Meiðsli, veikindi og svo framvegis. Þetta voru hlutir sem var erfitt að vinna úr og ekkert við Jón Þór að sakast. Leikmenn sem voru fengnir inn voru ekki að standa sig, sem áttu að vera máttarstólpar í þessu liði.“

Lán í óláni að Viktor meiddist

Eyþór setti sér markmið fyrir tímabilið að skora sjö mörk en það var hálfgert lán í óláni að Viktor Jónsson meiddist og nýtti því Eyþór tækifærið þegar það gafst.

„Þetta var fínasta tímabil fyrir mig. Ég náði að pota inn mörkum og einhverjum stoðsendingum og alla vega náði markmiðum sem ég setti mér fyrir þetta tímabil og get gengið glaður frá þessu seasoni svosem, en auðvitað súrt að falla og lið eins og ÍA með allan þennan mannauð, aðstöðu og allt fólkið í kring. Þetta á ekki heima í Lengjudeildinni og vona og trúi því að liðið verði ekki lengi þar og komi sér upp sem fyrst.“

„Já, ekki spurning. Það skiptir sem máli að vera sem mest tilbúinn þegar tækifærið gefst. Að mínu mati var ég tilbúinn að hoppa í skarðið hans Viktors ef eitthvað skildi gerast. Þetta var lán í óláni að Viktor meiðist og heillaskref fyrir mig að hann skuli meiðast, en að vera tilbúinn klárlega þegar tækifærið gefst.“

„Ég setti markmið um að skora sjö mörk eða fyrst og fremst spila sem mest. Það markmið tókst en svo að skora sjö mörk sem tókst og reyndar setti ég líka markmið um sjö stoðsendingar en það tókst ekki. Ég mun berja hausnum í veggi yfir því en markmiðið að spila sem mest og fá sem flestar mínútur“

„Ekki spurning. Þetta var heillaskref fyrir mig. Þessi þrjú ár sem ég var tók aðeins lengri tíma en ég hélt. Allt fólkið sem ég kynnist, búningastjórar, þjálfarar, stjórnarmenn og allt þetta fólk — er þakklátur fyrir að hafa kynnst þessu fólki og klárlega tími sem ég sé ekki eftir.“


Ármann Smári Björnsson, fyrrum framherji ÍA, aðstoðaði liðið í síðustu leikjunum. Eyþór og Ármann bjuggu til sterk tengsl og er Eyþór þakklátur fyrir hans aðstoð.

„Það var smá vindur undir vængi þegar hann kom inn. Það var geggjað að fá hann og tröllið sem hann er og fyrrum framherji, þá var hann klárlega að hjálpa mér í mínum leik og motivation fyrir leik og svoleiðis. Það var geggjað að fá hann inn.“ sagði hann í lokin.
Eyþór Wöhler: Fyrst og fremst Óskar Hrafn Þorvalds
Athugasemdir
banner
banner