Endrick, Marcus Rashford, Kobbie Mainoo, Harvey Elliott og N'Golo Kante og fleiri koma fram í slúðurpakka dagsins.
banner
   sun 02. nóvember 2025 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Messi skoraði í tapi - Fá úrslitaleik á heimavelli
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Nashville 2 - 1 Inter Miami
1-0 Sam Surridge ('9, víti)
2-0 Josh Bauer ('45)
2-1 Lionel Messi ('90)

Nashville tók á móti Inter Miami í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni bandarísku MLS deildarinnar í nótt.

Inter vann fyrsta leikinn 3-1 á heimavelli en Nashville var sterkari aðilinn á sínum eigin heimavelli.

Sam Surridge, fyrrum leikmaður Bournemouth og Nottingham Forest, skoraði úr vítaspyrnu strax á níundu mínútu og tvöfaldaði Josh Bauer forystuna verðskuldað fyrir Nashville skömmu fyrir leikhlé.

Gestirnir frá Miami rifu sig í gang eftir leikhlé og fengu góð færi til að minnka muninn. Boltinn rataði þó ekki í netið fyrr en á 90. mínútu, þegar Messi skoraði eftir stoðsendingu frá Rodrigo De Paul. Lokatölur 2-1 fyrir Nashville.

Samkvæmt hefðbundnum fótboltareglum væri staðan 3-4 samanlagt fyrir Inter en bandaríska úrslitakeppnin er með sínar eigin reglur, þar sem markatala er gjörsamlega virt að vettugi. Einungis sigrar telja.

Staðan er því í raun 1-1 í einvíginu og munu liðin mætast í úrslitaleik í Miami að viku liðinni. Sigurvegarinn fer áfram í 8-liða úrslitin og mætir annað hvort FC Cincinnati eða Columbus Crew þar.

Það er ekki hægt að gera jafntefli í úrslitakeppninni. Ef leikur er jafn eftir venjulegan leiktíma verður farið beint í vítaspyrnukeppni.
Athugasemdir
banner