banner
   sun 03. janúar 2021 19:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Svona unnum við deildina og aðra titla"
Guardiola kveðst stoltur af Foden.
Guardiola kveðst stoltur af Foden.
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var mjög ánægður með spilamennsku sinna manna í 3-1 sigrinum gegn Chelsea á Stamford Bridge í kvöld.

City er núna í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum frá efstu tveimur liðunum - Man Utd og Liverpool - með leik til góða.

„Við spiluðum mjög vel og úrslitin eru stórkostleg. Við spiluðum frábærlega og þú getur ekki unnið titla án þess að spila eins og við gerðum í dag," sagði Guardiola eftir leikinn.

„Chelsea er eitt sterkasta liðið í deildinni og þú sérð gæðin sem þeir eru með inn á vellinum og á bekknum. Við vildum spila eins og við höfum gert áður og það virkaði. Leikmennirnir voru frábærir að öllu leyti... við verðum að spila í okkar takti og sækja á réttum augnablikum. Við höfum saknað þess að spila á þessum tempói, en í dag kom það."

City hefur núna unnið þrjá leiki í röð í öllum keppnum. Hefur eitthvað breyst á undanförnum vikum?

„Sami stjóri, sömu starfsmenn, leikmennirnir eru þeir sömu og hugmyndirnar þær sömu. Svona unnum við deildina og aðra titla, með því að spila eins og við gerðum í dag. Við fundum tempóið aftur."

City var án Ederson, Gabriel Jesus, Ferran Torres og Kyle Walker sem eru með Covid. Aymeric Laporte og Nathan Ake voru þá ekki klárir í slaginn fyrir þennan leik, en City er með fína breidd eins og þeir sýndu í dag. Phil Foden byrjaði og átti góðan leik. Guardiola segist vera stoltur af hinum 20 ára gamla Foden.

„Hann verður svo mikilvægur fyrir okkur og enska landsliðið því hann er svo gáfaður og rólegur. Hann sýndi góða frammistöðu," sagði Guardiola um Foden.
Athugasemdir
banner
banner
banner