banner
   þri 03. mars 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ferðuðust næstum tíu þúsund kílómetra til að sjá Akinfenwa spila
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Tveir knattspyrnuáhugamenn frá Mexíkó ferðuðust næstum tíu þúsund kílómetra til að sjá uppáhaldsleikmann sinn spila með Wycombe Wanderers í ensku C-deildinni.

Þeir tóku ferðalagið ekki sérstaklega fyrir Wycombe heldur til að sjá sóknarmanninn ógurlega Adebayo Akinfenwa, sem hefur verið titlaður sterkasti knattspyrnumaður heims.

Mexíkóarnir mættu til Doncaster og voru ekki sáttir þegar þeir sáu sinn mann sitja á bekknum. Þeir glöddust þó þegar Akinfenwa var skipt inn á 57. mínútu, þegar Wycombe var 1-0 undir.

Akinfenwa skoraði jöfnunarmark tíu mínútum eftir innkomuna en heimamenn skiptu um gír og unnu leikinn 3-1.

Akinfenwa verður 38 ára í maí en er kominn með 10 mörk í 32 deildarleikjum á tímabilinu. Wycombe er í fjórða sæti og ætlar sér upp í Championship deildina.

„Við ákváðum að fara í þetta ferðalag því bróðir minn spilar FIFA. Einn daginn spiluðum við með Wycombe og sáum Akinfenwa. Við áttuðum okkur strax á að hann er algjört skrímsli og vildum sjá hann spila," sagði Frenzel Gamez, annar bræðranna.

„Við fundum hann á Instagram og fannst hann algjörlega frábær. Við byrjuðum að fylgja honum og urðum aðdáendur. Þess vegna erum við hér.

„Við höfum verið að hugsa um að gera þetta í rúmt ár og keyptum loksins miðana fyrir þremur mánuðum.

„Þetta er erfið ferð fjárhagslega en við urðum að sjá Akinfenwa spila áður en hann leggur skóna á hilluna."


Akinfenwa varð markahæsti leikmaður í sögu Wycombe með þessu marki. Hann er kominn með 53 mörk í 173 leikjum fyrir félagið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner