Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 03. mars 2020 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Inzaghi bræðurnir í sögubækurnar
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Bræðurnir Simone og Filippo Inzaghi eru komnir í sögubækurnar á Ítalíu fyrir að vera fyrstu meðlimir sömu fjölskyldunnar til að hafa þjálfað topplið Serie A og B á sama tíma.

Simone er við stjórnvölinn hjá Lazio sem hefur verið að spila ótrúlega vel og er í harðri titilbaráttu við Inter og Juventus.

Filippo stýrir Benevento sem er gjörsamlega að rúlla yfir B-deildina. Félagið trónir þar á toppinum með sautján stiga forystu.

Forysta Lazio er þó öllu naumari. Liðið er með tveggja stiga forystu á Juventus sem stendur en búið að spila einum leik meira. Juve á leik til góða gegn Inter.

Þetta er í fyrsta sinn sem Lazio vermir toppsæti efstu deildar síðan Sven-Göran Eriksson var við stjórnvölinn í febrúar 1999. Á sama tíma er Benevento fyrsta félagið í sögu B-deildar til að vera komið með 63 stig eftir 26 umferðir.

Simone og Filippo voru atvinnumenn á sama tíma en spiluðu aldrei fyrir sama félag. Þeir deildu ellefu mínútum sem samherjar - í æfingalandsleik gegn Englandi.

Báðir léku þeir sem sóknarmenn. Simone skoraði 55 mörk í 194 leikjum fyrir Lazio og spilaði aðeins þrjá landsleiki.

Filippo, betur þekktur sem Pippo, náði talsvert betri árangri og skoraði rúmlega 200 mörk fyrir Juventus og AC Milan. Auk þess gerði hann 25 mörk í 57 landsleikjum.
Athugasemdir
banner