þri 03. mars 2020 12:30
Elvar Geir Magnússon
Man Utd veltir markvarðarstöðunni fyrir sér - Fundað með Henderson
Dean Henderson.
Dean Henderson.
Mynd: Getty Images
David de Gea hefur gert mörg mistök.
David de Gea hefur gert mörg mistök.
Mynd: Getty Images
Manchester United er að skoða markvarðarstöðuna hjá sér en David de Gea hefur legið undir mikilli gagnrýni. Hans staða sem aðalmarkvörður er ekki talin örugg í dag.

De Gea hefur verið aðalmarkvörður United síðan 2011 en hann hefur verið að gera of mörg mistök og það hefur skapað efasemdir. Áhyggjur hafa vaknað vegna daprar frammistöðu og einbeitingarleysis.

Ole Gunnar Solskjær sýndi Spánverjanum stuðning þegar hann var í basli fyrir ári síðan og vonast til þess að markvörður sinn komi sér aftur á skrið.

Daily Mail segir að United ætli að nota næstu mánuði til að velta markvarðarstöðunni fyrir sér en fyrir lok mánaðarins er fyrirhugaður fundur með Dean Henderson og hans mönnum.

Henderson hefur verið einn besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu en hann er á láni frá United hjá Sheffield United.

Henderson verður 23 ára í næstu viku en hann er sagður vera með það á markmiðalistanum sínum að verða aðalmarkvörður á Old Trafford.

Varamarkvörður United í dag er Argentínumaðurinn Sergio Romero sem verður væntanlega í markinu í bikarleiknum gegn Derby á fimmtudag. Romero er sagður ánægður í stöðu sinni sem markvörður númer tvö.

Það yrði hægara sagt en gert ef United ákveður að selja De Gea sem er á 375 þúsund punda launum á viku. Það eru ekki mörg félög sem hafa efni á honum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner