Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 03. mars 2020 20:23
Ívan Guðjón Baldursson
Þýski bikarinn: Saarbrucken í sögubækurnar eftir ótrúlegan bráðabana
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Saarbrücken 1 - 1 Düsseldorf
1-0 Tobias Janicke ('23)
1-0 Rouwen Hennings, misnotað víti ('83)
1-1 Mathias Jörgensen ('90)
7-6 í vítaspyrnukeppni

Fortuna Düsseldorf stjórnaði leiknum er liðið heimsótti D-deildarlið Saarbrücken í 8-liða úrslitum þýska bikarsins.

Saarbrücken, sem sló Köln og Karlsruher úr bikarnum, komst yfir gegn gangi leiksins með marki úr skyndisókn á 23. mínútu.

Gestirnir frá Dusseldorf voru mun betri og óðu í færum en inn vildi boltinn ekki. Rouwen Hennings misnotaði vítaspyrnu á 83. mínútu en danski varnarmaðurinn Mathias Jörgensen náði að jafna með skalla eftir hornspyrnu á 90. mínútu.

Florian Kastenmeier, markvörður Dusseldorf, hljóp fram fyrir hornspyrnuna og lagði jöfnunarmarkið upp með skalla.

Leikurinn var framlengdur og ríkti jafnræði með liðunum alla framlenginguna. Því þurfti vítaspyrnur til að úrskurða sigurvegara og úr varð hin mesta skemmtun.

Bæði lið klúðruðu tveimur af fyrstu fimm spyrnunum og því þurfti að fara í bráðabana. Bæði lið klúðruðu sjöttu spyrnunni og skoruðu svo úr næstu þremur.

Þegar komið var að tíundu vítaspyrnunni skoraði Mario Muller fyrir heimamenn en Jörgensen steig á punktinn fyrir Dusseldorf og klúðraði.

Saarbrücken heldur því ótrúlegri ferð sinni áfram í gegnum þýska bikarinn og er komið í pottinn fyrir undanúrslitin.
Saarbrücken er fyrsta D-deildarliðið til að komast í undanúrslit þýska bikarsins.
Athugasemdir
banner
banner