sun 03. maí 2020 14:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bojan gagnrýnir kaupin á Braithwaite: Barca var með stefnu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Bojan Krkic er einn af mörgum leikmönnum sem komu upp í gegnum fræga akademíu Barcelona, La Masia.

Hann setur spurningarmerki við neyðarkaupin á Martin Braithwaite utan félagaskiptaglugga síðasta febrúar, til að fylla í skarð Luis Suarez og Ousmane Dembele sem voru frá vegna langtímameiðsla.

Bojan gagnrýnir Barcelona fyrir kaupin og er ósáttur með að stefna félagsins sé ekki virt.

„Barca er með stefnu. Eða var með stefnu, og ég vil hvetja félagið til að taka þá stefnu upp aftur. Real Madrid hefur verið þekkt fyrir árangur í gegnum félagaskipti á meðan Barca er þekkt fyrir uppeldisstarfið í La Masia," sagði Bojan við Sport.

„Án þessarar stefnu hefðum við aldrei fengið að njóta leikmanna á borð við Messi, Xavi og Iniesta auk margra aðra. Þessir leikmenn eru ekki einungis partur af sögu Barcelona heldur eru þeir mikilvægur partur af sögu knattspyrnuheimsins.

„Þetta þýðir ekki að félagið megi ekki kaupa leikmenn, en það verður að vera eitthvað plan fyrir þá. Hvað er planið með Trincao? Verður hann lánaður út? Hvað ætlum við að gera við Riqui Puig? Mun Ansu Fati halda áfram að spila fyrir aðalliðið? Það er mikið af spurningum en fátt um svör.

„Félagið má ekki kaupa leikmenn útaf hræðslu. Kaupin á Braithwaite til að fylla í skarð Luis Suarez eru alveg eins og kaupin á Maxi Lopez þegar Samuel Eto'o meiddist. Þetta fer gegn stefnu félagsins, stefnunni sem gerði þetta félag frábært. Það er mikilvægt að halda sömu stefnu áfram og gefa ungum uppöldum leikmönnum traust og tækifæri."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner