sun 03. maí 2020 10:30
Ívan Guðjón Baldursson
Perth sækist eftir að hýsa lokahnykk ensku úrvalsdeildarinnar
Optus leikvangurinn í Perth með og án áhorfenda.
Optus leikvangurinn í Perth með og án áhorfenda.
Mynd: Getty Images
Ástralska stórborgin Perth hefur boðist til að hýsa lokahnykk ensku úrvalsdeildarinnar, sem er að skoða að klára tímabilið á hlutlausum völlum í miðjum heimsfaraldri.

Umboðsmaðurinn Gary Williams hefur sett sig í samband við ensku úrvalsdeildina og úrvalsdeildarfélög í tilraun til að semja um að klára tímabilið í Perth. Williams hefur fengið opinberan stuðning frá borgarstjóranum í Perth og íþróttamálaráðherra Ástralíu.

Williams segir að ensk úrvalsdeildarfélög séu að taka vel í hugmyndina til að byrja með. Í Perth eru fjórir nothæfir leikvangar og er veðrið fullkomið á þessum árstíma.

„Úrvalsdeildarfélögin virðast opin fyrir þessari hugmynd og ég hef einnig fengið stuðning frá ríkisstjórninni og borgarstjóranum," sagði Williams.

„Fólk er öruggt frá veirunni hérna, almenningur má fara út og það er búið að opna strandirnar aftur. Það hafa aðeins verið fjórar nýjar sýkingar á síðustu tíu dögum."

Perth er einangraðasta stórborg heims, þar sem rúmlega 2000 kílómetrar eru frá Perth að næstu stórborg, Adelaide.

Þetta gæti reynst afar jákvætt fyrir ensk úrvalsdeildarfélög, sem þyrftu ekki að hafa miklar áhyggjur af smithættu í Perth.

Það hafa aðeins 95 manns látist vegna kórónuveirunnar í Ástralíu, á meðan 28 þúsund hafa fallið frá í Bretlandi.

„Perth er miðpunktur íþróttaheimsins í Ástralíu. Hér er ferskt loft og frábært veður. Þetta væri fullkomið samstarf."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner