Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
banner
   fim 03. júní 2021 11:00
Elvar Geir Magnússon
Framtíðarfyrirliði Englendinga
Bellingham í leiknum í gær.
Bellingham í leiknum í gær.
Mynd: EPA
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, er ekki hræddur við að setja pressu á miðjumanninn Jude Bellingham.

Bellingham verður 18 ára á meðan EM alls staðar stendur yfir en þegar Southgate valdi þennan spennandi leikmann Borussia Dortmund í hóp sinn sagði hann einfaldlega að þarna væri á ferð framtíðarfyrirliði Englands.

„Engin pressa á þig strákur," skrifar Andy Dunn, íþróttafréttamaður Mirror, sem hrósar leikmanninum í hástert fyrir frammistöðuna í 1-0 sigrinum gegn Austurríki í vináttuleik í gær.

„En maður hefur þá tilfinningu að Bellingham ráði við alla þá pressu sem á hann er sett. Miðað við frammistöðu hans gegn Austurríki virðist landsliðsfótbolti vera honum í blóð borinn."

Bellingham lék sem afturliggjandi miðjumaður og sýndi gæði sín. Þá sýndi hann einnig að líkamlega ráði hann við leiki á þessu stigi.

„Hann er einfaldlega gríðarlega spennandi alhliða hæfileikamaður. Það kemur ekki á óvart að hann var valinn nýliði tímabilsins í þýsku Bundesligunni. Í gær leit hann út og spilaði eins og fyrirliði," skrifar Dunn.

Bellingham var að klára sitt fyrsta tímabil hjá Dortmund en hann gekk í raðir þýska félagsins frá Birmingham.
Athugasemdir
banner
banner