banner
   fös 03. júní 2022 11:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
De Gea valinn leikmaður ársins af leikmönnum Man Utd
Mynd: EPA
Leikmannahópur Manchester United hefur valið David De Gea sem besta leikmann liðsins tímabilið 2021/22.

Spænski markvörðurinn átti ágætis tímabil milli stanganna, lék allar mínúturnar í ensku úrvalsdeildinni.

De Gea, sem er 31 árs, var valinn maður leiksins sjö sinnum á tímabilinu sem er jafnoft og Cristiano Ronaldo. Sá spænski var þá valinn leikmaður mánaðarins í nóvember, desember og janúar.

Á heimasíðu Manhcester United er sérstaklega komið inn á frammistöðu De Gea gegn Villarreal á heimavelli í Meistaradeildinni og West Ham á útivelli. Gegn West Ham varði De Gea vítaspyrnu frá Mark Noble. Gegn Villarreal hélt De Gea stöðunni í 1-1 í seinni hálfleik með frábærum vörslum áður en Ronaldo skoraði svo undir lokin og tryggði stigin þrjú.

Árið 2018 varð De Gea fyrstur í sögunni til að verða þrisvar sinnum útnefndur leikmaður ársins af leikmönnum United og nú hefur hann fjórum sinnum verið valinn. Luke Shaw var valinn leikmaður ársins 2019 og 2021 og Anthony Martial árið 2020.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner