þri 03. júlí 2018 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Southgate: Ætlum ekki að falla í sömu gildru og gegn Íslandi
Mynd: Getty Images
Gareth Southgate vinnur hörðum höndum við að undirbúa leikmannahóp Englendinga fyrir spennandi viðureign gegn Kólumbíu í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins. Liðin mætast í dag klukkan 18:00.

Southgate var á fréttamannafundi í gær og minntist þess þegar enska landsliðið var slegið út á síðasta stórmóti, gegn Íslandi í 16-liða úrslitum evrópumótsins í Frakklandi.

„Við erum að reyna að undirbúa strákana sálfræðilega. Sumir þurfa hjálp við að slaka á, aðrir þurfa hjálp við að gíra sig upp. Þess vegna erum við með svona stórt og vel undirbúið starfslið," sagði Southgate.

„Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu í hópnum og skilningi um að það þýðir ekkert að horfa lengra heldur en til næsta leiks.

„Nokkrir í hópnum voru á síðasta stórmóti (EM 2016) og bjuggust við sigri í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar. Það er gildra sem við munum ekki falla í aftur, sérstaklega ekki gegn Kólumbíu.

„Við vitum vel að við þurfum að vera upp á okkar besta til að hafa betur gegn þessum afar sterku andstæðingum."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner