banner
   mið 03. júlí 2019 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Copa America: Firmino og Jesus sendu Messi í sumarfrí
Gabriel Jesus fagnar marki sínu í kvöld með Roberto Firmino og Everton Soares
Gabriel Jesus fagnar marki sínu í kvöld með Roberto Firmino og Everton Soares
Mynd: Getty Images
Lionel Messi er farinn í sumarfrí
Lionel Messi er farinn í sumarfrí
Mynd: Getty Images
Brasilía 2 - 0 Argentína
1-0 Gabriel Jesus ('19 )
2-0 Roberto Firmino ('71 )

Brasilía er komið í úrslitaleik Copa America eftir að hafa lagt Argentínu að velli, 2-0, á Minerao-leikvanginum í Belo Horizante í Brasilíu í nótt.

Gabriel Jesus, framherji Manchester City á Englandi, kom Brasilíu yfir á 19. mínútu. Daniel Alves lék þá listir sínar áður en hann lagði boltann út á Roberto Firmino sem kom knettinum fyrir markið á Jesus sem skoraði af miklu öryggi.

Sergio Aguero átti skalla í slá eftir fyrirgjöf frá Lionel Messi stuttu síðar en Messi var týndur stóran hluta af fyrri hálfleik. Brassarnir voru ekkert frábærir en nýttu einfaldlega sín færi.

Argentínumenn voru öflugir í byrjun fyrri hálfleiks. Messi vaknaði og átti meðal annars skot í stöng. Alisson varði þá aukaspyrnu frá honum á 66. mínútu en hana má sjá hér fyrir neðan.




Brasilíumenn gerðu þó út um leikinn á 71. mínútu er Roberto Firmino skoraði og var það Jesus sem ákvað að þakka fyrir stoðsendinguna í fyrri hálfleik. Jesus keyrði inn vinstra í teiginn, lagði boltann fyrir sig á hægri áður en hann kom honum inn á Firmino sem skoraði.

Argentínumenn reyndu eins og þeir gátu að koma til baka en það gekk ekki eftir. Lokatölur 2-0 og Brasilía í úrslitaleikinn en liðið mætir Síle eða Perú. Leikurinn fer fram á Maracana-leikvanginum í Ríó.



Athugasemdir
banner
banner
banner