banner
   lau 03. júlí 2021 21:52
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Er ekki sammála ykkur að enska liðið líti vel út"
Enska liðið er komið í undanúrslit.
Enska liðið er komið í undanúrslit.
Mynd: EPA
Fótboltaþjálfarinn Ólafur Kristjánsson segir að það vanti tempó í enska landsliðið.

England vann í kvöld 4-0 sigur á Úkraínu en Ólafi fannst leikur Englands ekki mikil skemmtun þrátt fyrir það.

„Maður veltir fyrir sér hvernig leikmyndin hefði orðið ef þeir hefðu ekki skorað snemma, miðað við tempóið í fyrri hálfleik. Kannski var tempóið í fyrri hálfleik svona af því að þeir voru komnir með þetta mark," sagði Ólafur á Stöð 2 Sport eftir leik.

„Kane gerir tvö frábær mörk eftir tveir frábærar stoðsendingar... svo gera þeir tvö mörk úr föstum leikatriðum sem voru sett vel inn. Í fyrri hálfleik var ekkert tempó hjá þeim. Þeir fóru úr hlutlausum í fyrsta gír, kannski úr fyrsta gír í annan gír í seinni hálfleik og skora aftur snemma þar."

„Ég er ekki sammála ykkur að enska liðið líti vel út, þeir fá frábær úrslit. Kíkið á þau fjögur lið sem eru eftir; það er tempó í öllum liðunum nema enska. Ég sakna þess í enska liðinu. Southgate er frjálst að velja sinn leikstíl en við erum að tala um England, lið sem ætlar að vera stórveldi og vinna... ég sakna þess að fá meiri hraða og meiri dýnamík með alla þessa leikmenn."

„Ég sá ekkert spennandi í taktíkinni hjá England og ef þú spyrð mig hvort ég hafi skemmt mér: 'Nei'. En mér fannst þessi fjögur mörk góð og svo framvegis."

England fer núna aftur á Wembley og mætir Danmörku í undanúrslitunum í næstu viku. Þeir hafa ekki enn fengið á sig mark á mótinu.
Athugasemdir
banner
banner