mið 03. ágúst 2022 16:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Geta ekki gert athugasemdir við samninginn núna - Hvað segir KA þá?
Brynjar Gauti yfirgaf herbúðir Stjörnunnar í síðasta mánuði.
Brynjar Gauti yfirgaf herbúðir Stjörnunnar í síðasta mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar í leik með Fram.
Brynjar í leik með Fram.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Brynjar verður líklega ekki með í kvöld.
Brynjar verður líklega ekki með í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Tim Howard.
Markvörðurinn Tim Howard.
Mynd: Getty Images
Varnarmaðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson mun líklega ekki spila með Fram gegn Stjörnunni í kvöld.

Brynjar gekk í raðir Fram frá Stjörnunni í síðasta mánuði. Miðvörðurinn hefur komið virkilega öflugur inn í lið Fram og hjálpað til við að binda vörn liðsins saman. Brynjar skrifaði undir samning við Fram sem gildir út tímabilið 2024.

Hann hafði ekki fengið margar mínútur hjá Stjörnunni en kom beint inn í liðið hjá Fram sem hefur fengið sjö stig úr leikjunum þremur sem Brynjar hefur spilað.

Brynjar kemur þó ekki til með að spila á móti Stjörnunni þegar liðin mætast í kvöld. Í samningi leikmannsins er klásúla sem gerir það að verkum að Fram þarf að greiða ákveðið háa upphæð til Stjörnunnar ef hann spilar gegn liðinu á þessu ári.

Það hafa vaknað upp spurningar um það hvort svona klásúlur séu í raun löglegar, að lið séu hvött til að tefla fram veikara liði og peningar í húfi.

Fréttamaður Fótbolta.net hafði samband við Hauk Hinriksson, yfirlögfræðing KSÍ, varðandi þetta tiltekna mál í dag. Er þetta löglegt?

„Ég get ekki gefið þér endanlegt svar við þessari spurningu. Ég hef ekki þennan samning í mínum höndum og get ekki alveg lagt mat á það," segir Haukur.

„Til þess að KSÍ eða nefnd innan KSÍ leggi mat á það hvort svona ákvæði séu lögleg eða ekki, þá þyrfti það að koma til KSÍ með hefðbundnum eða formlegum hætti. Þá yrði skorið úr því hvort svona ákvæði er heimilt eða ekki."

„Hingað til hefur ekkert slíkt gerst og ég hef litlar forsendur til að byggja á í mínu svari."

Einstaklingur eða félag sem hefur hagsmuni af meintu broti þyrfti því að láta reyna á málið með kæru eða erindi til úrskurðanefnda hjá KSÍ. Þá yrði mögulega hægt að skera úr um hvort þetta sé löglegt eða ekki.

„Það getur allt skipt máli, orðalag og annað slíkt. Þá yrði skorið úr um það innan KSÍ en ég á ekki endilega von á því að það gerist. Það er erfitt fyrir mig að tjá um þetta án þess að hafa séð þetta ákvæði," segir Haukur. „Við höfum ekki fengið til álita þennan samning eða þetta ákvæði."

Þótti ólöglegt fyrir Man Utd fyrir 15 árum
Fyrir 15 árum síðan reyndi Manchester United að gera það nákvæmlega sama með bandaríska markvörðinn Tim Howard þegar hann var keyptur á miðju tímabili.

David Gill, þáverandi framkvæmdastjóri Man Utd reyndi að hafa klásúlu í samningnum sem myndi meina Everton að stilla upp Howard í sínu liði gegn United á því tímabili.

Richard Scudamore, sem var þá framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, kom í veg fyrir að klásúlan yrði í samningnum þar sem hann varaði Gill við því að United ætti von á einhvers konar refsingu ef það yrði gert. Það færi gegn reglum ensku úrvalsdeildarinnar varðandi kaupsamninga.

Howard endaði samt á því að spila ekki leikinn þann 28. apríl 2007. United vann 4-2 og kom sér í þægilega stöðu upp á titilinn að gera. Það var talað um að það væri heiðursmannasamkomulag þarna á milli, en ekkert brot var í samningi samkvæmt ensku úrvalsdeildinni.

Hvað finnst KA-mönnum um þetta?
Brynjar Gauti þótti ekki nægilega sterkur fyrir lið Stjörnunnar á þessu tímabili en samt vilja Garðbæingar koma í veg fyrir að hann spili gegn þeirra liði á morgun. Fram samþykkti það tæknilega séð þar sem félagið keypti hann með þessa klásúlu innifalda í samningnum, félagið var tilbúið að taka það á sig til þess að fá þennan öfluga varnarmann til sín.

Úrslit í þessum leik geta samt sem áður haft áhrif á aðra aðila, önnur félög. Til dæmis á Evrópubaráttuna þar sem Stjarnan er að berjast við KA um þriðja sætið sem getur veitt þáttökurétt í Evrópukeppni á næsta tímabili. Fram er auðvitað líklegra með Brynjar Gauta í liðinu. Segjum sem svo að Stjarnan vinni í kvöld og endi svo með einu stigi meira en KA að lokum. Hvað segja Akureyringar þá?

Leikur Fram og Stjörnunnar í kvöld er á dagskrá klukkan 19:15 í kvöld. Brynjar Gauti verður eflaust ekki með í þeim leik.

Sjá einnig:
Samkomulag sem ætti ekki að vera leyfilegt?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner