Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 03. september 2020 14:30
Magnús Már Einarsson
EM ævintýri Íslands - Þegar Ísland skellti Englandi í Nice
Fagnaðarlætin eftir leikinn í Nice voru rosaleg.
Fagnaðarlætin eftir leikinn í Nice voru rosaleg.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Wayne Rooney skoraði úr vítaspyrnu snemma leiks.
Wayne Rooney skoraði úr vítaspyrnu snemma leiks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
....en Raggi Sig var ekki lengi að jafna.
....en Raggi Sig var ekki lengi að jafna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn kemur Íslandi yfir....
Kolbeinn kemur Íslandi yfir....
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
....og fagnar.
....og fagnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason fagnar sigrinum á meðan Englendingar liggja svekktir eftir á vellinum.
Kári Árnason fagnar sigrinum á meðan Englendingar liggja svekktir eftir á vellinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árið 2016 er eitt það eftirminnilegasta í fótboltasögu Íslands. Íslenska landsliðið fór alla leið í 8-liða úrslit á EM eftir frækna frammistöðu og 2-1 sigur á Englandi í 16-liða úrslitum. Fótbolti.net rifjar upp sjálfan sigurinn á Englendingum í tilefni þess að iðin mætast á nýjan leik á Laugardalsvelli á laugardaginn.

Sjá einnig:
EM ævintýri Íslands - Ronaldo fór í fýlu eftir jafntefli í St. Etienne
EM ævintýri Íslands - Ólæti Ungverja og svekkjandi jafntefli
EM ævintýri Íslands - Markið sem setti þjóðina á hliðina

England 1 - 2 Ísland
1-0 Wayne Rooney ('4 , víti)
1-1 Ragnar Sigurðsson ('6)
1-2 Kolbeinn Sigþórsson ('18)
Smelltu hér til að fara í textalýsingu frá leiknum
Smelltu hér til að sjá EM svítuna eftir leik
Eftirvæntingin hjá Íslendingum var mikil fyrir leikinn gegn Englandi í Hreiðrinu í Nice. Enski boltinn hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá íslensku þjóðinni og íslenskir fótboltaáhugamenn þekkja enska liðið inn og út.

Byrjunin var ekki góð því Wayne Rooney skoraði strax á fjórðu mínútu fyrir England. Hannes Þór Halldórsson braut á Raheem Sterling og Damir Skomina frá Slóveníu dæmdi vítaspyrnu sem Rooney skoraði úr.

Einungis tveimur mínútum seinna átti Aron Einar Gunnarsson langt innkast sem Kári Árnason skallaði áfram. Þar kom Ragnar Sigurðsson aðvífandi og jafnaði leikinn.

Eftir frábæra sókn á 18. mínútu náði Ísland síðan að komast yfir þegar Kolbeinn Sigþórsson skoraði. Joe Hart var í boltanum en hann fór yfir línuna og staðan orðin 2-1 Íslandi í vil.

Í síðari hálfleik var íslenska vörnin öflug á meðan Englendingar voru ráðþrota í leit sinni að jöfnunarmarki. Ragnar átti magnaða hjólhestaspyrnu sem Hart varði og undir lokin átti Aron Einar sprett fram sem endaði með skoti sem Hart varði í horn.

Jamie Vardy var nálægt því að sleppa í gegn á einum tímapunkti en Ragnar átti frábæra tæklingu til að stöðva hann. Þess fyrir utan gerðu Englendingar lítið sóknarlega.

Fögnuðurinn var rosalegur þegar Skomina flautaði af en leikmenn Íslands tóku allir sprett í átt að íslensku stuðningsmönnunum sem voru í hinu horni vallarins. Ísland hafði slegið England út og tryggt leik gegn gestgjöfum Frakka í 8-liða úrslitunum!

Neðst í fréttinni má sjá svipmyndir úr leiknum

Forsíða í Noregi á íslensku
„Já, við elskum þetta land," stóð stórum stöfum á forsíðu norska blaðsins Verdens Gang daginn eftir leikinn. Á forsíðunni mátti sjá Kára Árnason fagna eftir 2-1 sigur Íslands á Englandi í gær. Margir hrifust með EM ævintýri Íslands og frændur okkar Færeyingar fóru þar fremstir í flokki en þeir hópuðust saman til að horfa á leiki Íslands í keppninni.

Kostuleg lýsing McClaren í beinni
Steve McClaren, fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga, var gestur í stúdíó hjá Sky þegar leikurinn var í gangi. Á 18. mínútu leiksins var McClaren að lýsa því að Englendingar þyrftu að halda áfram að hafa yfirburði í leiknum og... „það eina sem Ísland hefur er þessi stóri strákur frammi Sigþórsson," sagði McClaren. Um leið og hann sleppti orðinu skoraði Kolbeinn Sigþórsson 2-1! Frábært augnablik sem hægt er að sjá hér að neðan.

Enska pressan brjálaðist
Fyrir leikinn töluðu enskir fjölmiðlamenn um að það yrði mesta niðurlæging í sögu enska landsliðsins ef Ísland myndi vinna leikinn. Ísland vann og fyrirsagnirnar í ensku blöðunum voru grimmar. Í einkunnagjöf Daily Star fékk Joe Hart 0,5 í einkunn og Wayne Rooney 1 svo eitthvað sé nefnt.

Hodgson sagði af sér beint eftir leik
Roy Hodgson tilkynnti á fréttamannafundi strax eftir leik að hann hefði ákveðið að segja upp störfum. „Samningurinn klárast eftir EM og nú er kominn tími til að annar maður fái að vinna með þessa ungu, hungruðu og hæfileikaríku leikmenn. Þeir hafa verið frábærir og gert allt sem þeir hafa verið beðnir um," sagði Roy í yfirlýsingu sinni.

Fjórir fengu 10 í einkunn
Einkunnir íslensku landsliðsmannanna hafa aldrei verið jafn háar og
í einkunnagjöfinni eftir leikinn við England. Ragnar Sigurðsson, Birkir Bjarnason, Aron Einar Gunnarsson og Kolbeinn Sigþórsson fengu allir tíu i einkunn. Ragnar var valinn maður leiksins eftir magnaða frammistöðu sína.

Stuðningsmennirnir
Rúmlega 3000 íslenskir stuðningsmenn fengu miða á leikinn í almennri miðasölu. Reikna má með að fjöldi Íslendinga hafi hækkað aðeins með aðilum sem fengu miða með öðrum leiðum. Samtals voru 33,901 áhorfendur á leiknum í Hreiðrinu í Nice.

Lengjan tapaði milljónum
Fyrir leikinn var stuðullinn á Ísland 9 hjá veðmálafyrirtækinu Bet365. Stuðullinn var einnig mjög hár á Lengjunni og Íslenskar Getraunir komu út í talsverðum mínus á þessum leik. „Vorum að tapa milljónum á þessum úrslitum á Lengjunni - líður samt ótrúlega vel," sagði Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri Lengjunnar á Twitter eftir leik.

Allt sturlaðist á Arnarhóli
Ótrúlegur fjöldi kom saman á Arnarhóli til að fylgjast með leiknum. Svona var stemningin þar þegar Kolbeinn kom Íslandi í 2-1!

Fyrrum stjörnur orðlausar
Á Twitter varð allt vitlaust í kringum leikinn. Fyrrum stórstjörnur úr fótboltanum tjáðu sig eins og sjá má hér að neðan.
Fyrirliðinn tapaði veðmáli
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, þarf að setja brúnkukremið Brasilian Tan á sig eftir EM í Frakklandi. Ástæðan er sú að hann tapaði veðmáli við unnustu sína Kristbjörgu Jónasdóttur. Kristbjörg er með umboð fyrir Brasilian Tan. „Þetta er skelfilegt. Þetta verður gert eftir mót," sagði Aron í viðtali eftir leik.

Lars fékk atkvæði í forsetakosningunum
Tveimu dögum fyrir leikinn við England var Guðni Th. Jóhannesson kosinn forseti Íslands. Lars Lagerback var ekki í framboði en hann fékk þrátt fyrir það tæplega 30 atkvæði í kosningunum! Þeir atkvæðsseðlar voru gerðir ógildir. Eftir kosningarnar fór Guðni á leikinn í Nice en fyrir leik var hann í viðtali á Fótbolta.net líkt og Ólafur Ragnar Grímsson.

Sagt eftir leik

Ari Freyr Skúlason
„Ef ég tel ekki börnin mín með þá er þetta það stærsta sem ég hef afrekað í lífinu."

Heimir Hallgrímsson
„Þetta er líklega okkar besti leikur á mótinu, bæði varnar- og sóknarlega. Varnarlega áttum við ekki í mjög miklum vandræðum, okkur gekk vel að verjast Englendingum,"

Hannes Þór Halldórsson
„„Hvað getur maður sagt? Eru ekki allir búnir að segja það? Það eru engin orð, maður er að upplifa einhverjar nýjar tilfinningar og þetta er svo ótrúlega brjálað og maður er ennþá að átta sig á því að þetta er ekki draumur."

Aron Einar Gunnarsson
„Þeir reiknuðu ekki með okkur svona. Þeir áttuðu sig ekkert á íslensku geðveikinni. Við gerðum þetta rétt og gerðum þetta vel. Það kom þeim í opna skjöldu hversu hátt við pressuðum þá. Við ætluðum að koma þeim á óvart frá byrjun og þeir réðu ekkert við okkur."

Ragnar Sigurðsson
„Ég verð að viðurkenna að ég var svolítið peppaður fyrir þennan leik og stressið kikkaði svo á hótelinu þegar ég var farinn að hugsa allt of mikið um leikinn. Ég fíla það þegar stressið kemur því þá veit maður að manni er ekki sama og er að fara að geta hlaupið extra mikið."

Kári Árnason um Ragnar Sigurðsson
„Við erum frábærir saman. Ég get ekki lýst því með orðum hversu góður Raggi er og gott að spila með honum. Hann er kominn í eitthvað rugl, byrjaður að taka hjólhestaspyrnur. Það hefði verið eins og í lélegri B-mynd ef hann hefði sett hann með hjólhestaspyrnu í lokin. Hann er frábær leikmaður og það kæmi mér mjög á óvart ef Liverpool myndi ekki bjóða í hann."

Gylfi Þór Sigurðsson
„Það er geggjað að senda Englendingana heim. Við erum þreyttir eftir leikinn og við vorum mikið í vörn en það skiptir ekki máli, þeir voru ekki að skapa sér nein færi. Við erum gríðarlega sáttir og mjög stoltir á að hafa unnið þennan leik."

Twitter færslur leiksins











Svipmyndir úr leiknum og fagnaðarlátum eftir leik:
Smelltu hér til að sjá EM svítuna eftir leik
Smelltu hér til að sjá víkinga klappið eftir leik







Sjá einnig:
EM ævintýri Íslands - Ronaldo fór í fýlu eftir jafntefli í St. Etienne
EM ævintýri Íslands - Ólæti Ungverja og svekkjandi jafntefli
EM ævintýri Íslands - Markið sem setti þjóðina á hliðina
Athugasemdir
banner
banner
banner