lau 03. október 2020 15:45
Ívan Guðjón Baldursson
Rússland: Hörður Björgvin fékk rautt í sigri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ural 0 - 2 CSKA Moskva
0-1 B. Zaynutdinov ('52)
0-2 K. Maradishvili ('56)

Hörður Björgvin Magnússon var í byrjunarliði CSKA Moskvu sem heimsótti Ural í rússnesku deildinni í dag.

Staðan var markalaus eftir nokkuð bragðdaufan fyrri hálfleik en það hitnaði heldur betur í kolunum í upphafi síðari hálfleiks.

Hörður Björgvin fékk beint rautt spjald fyrir að ræna upplögðu marktækifæri af andstæðingi sínum með því að rífa hann niður sem aftasti varnarmaður.

Heimamenn klúðruðu aukaspyrnunni og komust liðsfélagar Harðar yfir skömmu síðar með marki frá Baktiyor Zaynutdinov. Fjórum mínutum eftir það tvöfaldaði Konstantin Maradishvili forystuna fyrir tíu leikmenn CSKA.

CSKA átti góðan síðari hálfleik þrátt fyrir að vera manni færri og hélt boltanum vel innan liðsins. Arnór Sigurðsson fékk að spreyta sig undir lokin og spilaði síðustu mínúturnar.

CSKA er í þriðja sæti eftir sigurinn, einu stigi eftir toppliðunum sem eiga þó leik til góða.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner