Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 03. nóvember 2020 19:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
KR sendi inn kæru - „Engin þjóð betur í stakk búin til að klára sín mót"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR.
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, sagði í hlaðvarpsþætti Valtýs Björn Valtýssonar að KR-ingar hafi sent inn kæru til KSÍ í dag.

„Hún er tilbúin kæran og hún fer inn í dag," sagði Páll í samtali við Valtý Björn í hlaðvarpsþættinum Mín Skoðun.

KSÍ tók ákvörðun síðasta föstudag að ljúka Íslandsmótinu vegna kórónuveirufaraldursins. KR telur að ákvörðun stjórnarinnar, er byggir á reglugerð stjórnar, fari gegn ákvæðum laga sambandsins.

KR missti af Evrópusæti í karlaflokki en liðið var í 5. sæti í Pepsi Max-deilinni þegar leik var hætt og í undanúrslitum í Mjólkurbikarnum. Kvennalið KR féll úr Pepsi Max-deildinni.

„Við telj­um að stjórn knatt­spyrnu­sam­bands­ins starfi á grund­velli knatt­spyrnu­laga. Knatt­spyrnu­lög­in eru sett á ársþingi sam­bands­ins og til að breyta lög­un­um þarf aðkomu aðild­ar­fé­lag­anna. Það er kosið um hvort heim­ilt sé að gera breyt­ing­ar á lög­un­um. Í 33. grein knatt­spyrnu­lag­anna er greint frá með mjög af­ger­andi hætti hvernig hægt sé að ljúka Íslands­mót­inu í fót­bolta," sagði Páll.

„Þar kem­ur fram að í efstu deild séu tólf lið og leikið sé heima og heim­an og stiga­söfn­un ráði úr­slit­um. Þetta er mjög af­ger­andi í lög­un­um. Þá seg­ir í 44. grein þess­ara sömu laga að stjórn sam­bands­ins geti sett nán­ari reglu um út­færslu knatt­spyrnu­lag­anna að því leyti að ekki sé kveðið á með lög­um þess­um. Þess­ir aðilar geta ekki sent tölvu­póst á alla aðila og sagst vera bún­ir að ákveða hvernig eigi að ljúka Íslands­mót­inu."

KSÍ setti lagagerð um það að Íslandsmótið yrði að klárast fyrir 1. desember, en Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri ÍA, benti á það á Facebook að síðasti mögulegi dagur til að ljúka Íslandsmótinu er sá dagur sem þarf að tilkynna UEFA hvaða lið taki þátt í Evrópukeppni. „Sem er næsta vor," sagði Páll.

„Það eru til úrræði sem sambandið hefði getað nýtt sér eins og að boða til bráðabirgðarþings. Auðvitað er maður að ákveðnu leyti drifinn áfram af hagsmunabaráttu; það er ekkert leyndarmál. Í grunninn snýst þetta um að stjórn KSÍ á að starfa eftir lögum."

„Í grunninn snýst þetta um að halda úti Íslandsmóti, að halda úti knattspyrnu á Íslandi. Það er engin þjóð í heiminum betur í stakk búin til að klára sín mót. Við erum með lengsta undirbúningstímabil í heiminum og við erum með knattspyrnuhöll í hverjum landsfjórðungi. Mér finnst einfaldlega þau rök að það séu komin leiði og þreyta í einstaka lið, mér finnst þau ekki vega nægilega þungt til að hægt sé að fara gegn grundvallareglum sambandsins um hvernig eigi að útkljá Íslandsmótið í fótbolta."

KR er ekki eina félagið sem er ósátt við niðurstöðu KSÍ. Magni og Fram hafa einnig lýst yfir óánægju með ákvörðunina.

Hlusta má á þáttinn í heild sinni hérna

Sjá einnig:
KR vísar ákvörðun KSÍ til áfrýjunardómstóls
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner