banner
   þri 03. nóvember 2020 18:46
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Verður Gaui Þórðar áfram? - „Náð að búa til festu"
Lengjudeildin
Guðjón Þórðarson og aðstoðarþjálfari Víkinga, Brynjar Kristmundsson.
Guðjón Þórðarson og aðstoðarþjálfari Víkinga, Brynjar Kristmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Þórðarson tók við Víkingi Ólafsvík í júlí og stýrði liðinu á endanum þægilega frá falli í Lengjudeildinni.

Það er spurning hvort þessi reynslumikli þjálfari verði áfram í Ólafsvík en það kom fram í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag að sögur væru á kreiki um að Guðjón yrði áfram með liðið.

„Ég heyrði það að Gaui Þórðar yrði líklega áfram í Ólafsvík," sagði Elvar Geir Magnússon í útvarpsþættinum.

Úlfur Blandon segist hafa heyrt úr leikmannahópi Víkings að leikmenn væru ánægðir með störf Guðjóns.

„Ég þekki nokkra leikmenn sem spila með Víking Ó. og þeim fannst mikil festa koma með Gauja Þórðar. Hann virðist hafa tekið utan um hópinn sem var í einhverjum molum og náð að búa til festu," sagði Úlfur Blandon.

„Það er sagan innan úr hópnum að æfingarnar hafi verið góðar og það hafi komið ákveðinn styrkleiki með honum, bæði varðandi utanumhald og skipuhald. Það voru agavandamál áður en hann kom á svæðið en hann virðist hafa náð tökum á því."

Þetta tímabil var ekki alltaf dans á rósum hjá Ólsurum eins og lesa má hérna en miðað við orð Úlfs þá hefur Guðjón náð vel til leikmannahópsins.

Hlusta má á útvarpsþáttinn í heild sinni hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Fótboltinn blásinn af
Athugasemdir
banner
banner