banner
   mán 04. janúar 2021 19:49
Brynjar Ingi Erluson
Ísak Bergmann: Ekki trúa öllu sem þið lesið í fjölmiðlum
Ísak Bergmann í leik með U21 árs landsliði Íslands
Ísak Bergmann í leik með U21 árs landsliði Íslands
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson segir að fólk eigi ekki að trúa öllu sem það les í fjölmiðlum en hann vísar þar orðrómum þess efnis að hann sé á leið frá Norrköping á bug.

Ísak er einn efnilegasti leikmaður Evrópu um þessar mundir en hann var að klára fyrsta tímabil sitt með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni.

Hann spilaði í heildina 32 leiki, skoraði 4 og lagði upp 12 á sínu fyrsta tímabili og eru stærstu félög Evrópu að fylgjast náið með honum.

Hjörvar Hafliðason ræddi mál Ísaks í hlaðvarpsþættinum Dr. Football en hann sagði að Ísak væri á leið frá Norrköping í janúar en Ísak sagði við sænska blaðið Aftonbladet að fólk ætti ekki að trúa öllu sem það les og heyrir í fjölmiðlum.

Hjörvar kom inná það í hlaðvarpsþættinum að Ísak myndi ekki taka stærsta skrefið og semja við félög á borð við Manchester United og Juventus.

„Maður á ekki að trúa öllu sem maður les. Þetta er ekki rétt og ég er leikmaður Norrköping og mun halda áfram að gera allt fyrir þetta félag. Ég get ekki stýrt því sem kemur fram í fjölmiðlum og það eina sem ég get gert er að gera mitt besta á æfingum og mæta öflugur til baka," sagði Ísak sem var á Íslandi yfir jólin.

Jens Gustafsson er hættur með Norrköping og tók Rikard Norling við liðinu en þakklæti er efst í huga Ísaks þegar hann talaði um Jens.

„Ég er þakklátur fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig. Nú er kominn nýr þjálfari og það verður spennandi. Það verður gaman að hitta hann og sjá hvað hann hefur í huga," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner