mið 04. mars 2020 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Richarlison: Nota peningana til að fjárfesta í framtíðinni
Mynd: Getty Images
Brasilíski framherjinn Richarlison hefur oft rætt um æsku sína þar sem hann ólst upp í sárafátækt í Nova Venecia.

Nú eru Richarlison og fjölskylda hans ekki lengur fátæk, enda er hann á ansi góðum launum þar sem hann er lykilmaður í liði Everton.

Richarlison segist forðast lúxuslífið og notar peninginn sinn frekar til að gera vel við fjölskyldumeðlimi.

„Ég átti ekkert þegar ég ólst upp en núna get ég allt í einu keypt mér nánast hvað sem er. Ég er mjög þakklátur fyrir það," sagði Richarlison í viðtali við O Globo í Rio de Janeiro.

„Ég ætla ekki að kaupa mér einhvern svakalegan bíl heldur ætla ég að nota peningana til að fjárfesta í framtíðinni og hjálpa fjölskyldunni. Ég hef verið að fjárfesta í fasteignum og öðrum hlutum sem munu koma sér vel í framtíðinni.

„Ég er búinn að gefa móður minni, föður, frænda og ömmu sín eigin heimili. Ég hef gefið frændum mínum bíla og mamma elskar mótorhjól svo ég keypti eitt handa henni.

„Systir mín á þrjú börn og ég hjálpa að borga fyrir skólagöngu þeirra og annað.

„Ég er ótrúlega heppinn. Æskuvinir mínir vinna í verslunum eða á ökrum í dag. Margir þeirra eru glæpamenn sem enduðu í fangelsi. Ég hefði orðið glæpamaður ef ekki fyrir fótboltaþjálfarann minn Fidel, sem var einnig lögregluþjónn, og frænda minn."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner