Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mið 04. maí 2022 16:00
Fótbolti.net
7. sæti í spá Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina: Grindavík
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð Elías og Kenan Turudija komu frá Selfossi í vetur.
Alfreð Elías og Kenan Turudija komu frá Selfossi í vetur.
Mynd: Knattspyrnudeild Grindavíkur
Sigurjón Rúnarsson
Sigurjón Rúnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dagur Ingi Hammer
Dagur Ingi Hammer
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kairo var fenginn til Grindavíkur í vetur.
Kairo var fenginn til Grindavíkur í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Sex aðilar spáðu í spilin fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-12 eftir því hvar þeim var spáð. Efsta sætið hjá hverjum aðila fékk tólf stig og svo koll af kolli.

Spáin:
7. Grindavík, 37 stig
8. Selfoss, 30 stig
9. sæti Grótta, 26 stig
10. Afturelding, 21 stig
11. KV, 13 stig
12. Þróttur Vogum, 6 stig

Um liðið: Grindavík olli talsverðum vonbrigðum í fyrra þegar liðið endaði í 7. sæti deildarinnar. Liðið vann sjö leiki, gerði fimm jafntefli og tapaði tíu leikjum og endaði með 26 stig. Liðið fékk einungis ellefu stig í síðusu fimmtán umferðunum.

Næstmarkahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar fór frá Grindavík í vetur en í staðinn hefur liðið fengið inn aðra öfluga leikmenn.

Þjálfarinn: Alfreð Elías Jóhannsson (1976) er kominn frá Selfossi í sinn gamla heimabæ. Alfreð var í fimm ár hjá Selfossi og landaði bikarmeistaratitli á sínum tíma þar. Alfreð er uppalinn í Grindavík og spilaði fótbolta þar þangað til hann hélt á Hornafjörð árið 2006. Sem þjálfari hefur hann einnig verið hjá Ægi, ÍBV og BÍ/Bolungarvík.

Álit sérfræðings
Rafn Markús og Úlfur Blandon eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina í ár. Rafn Markús gefur sitt álit á Grindavík.

„Það verður gaman að sjá hvernig Grindavík kemur inn í tímabilið með Alfreð sem þjálfara. Ég tel að Grindvíkingar komi brattir inn í tímabilið. Hafa æft mjög vel og kom því vel undirbúnir til leiks. Grindavík gerði vel með að ráða hann til félagsins. Í honum eru þeir með einstakling sem menn hafa mikla trú á í Grindavík og menn eru tilbúnir að gera margt fyrir hann til þess að ná árangri - hvort sem það er á þessu ári eða síðar. Alfreð er vel liðinn og verður auðvelt að flykkja sér bakvið hann og liðið, eitthvað sem Grindvíkingar þurftu á að halda og stemningin í samfélaginu minnir á þegar Óli Stefán tók við liðinu.“

„Grindavík hefur misst sterka leikmenn en fengið fína leikmenn í staðinn til að fylla þau skörð. Ég hef trú á því að liðið verða á svipuðum stað og spáin segir til um, engin toppbarátta en heldur ekkert bras.“

„Oft hefur það gerst að Grindvíkingar hafa náð að springa út í Grindavík og það gæti verið tilfellið með Dag Inga. Ég held að Grindvíkingar átti sig á að liðið sé í uppbyggingarfasa og að leikmannahópurinn og þeir leikmenn sem hafa komið inn eru flottir fyrir Alfreð til að vinna með."


Lykilmenn: Aron Jóhannsson, Sigurjón Rúnarsson og Aron Dagur Birnuson.

Fylgist með: Dagur Ingi Hammer Gunnarsson
Það verður gaman að fylgjast með hvort Dagur Ingi sem stóð sig frábærlega sem lánsmaður hjá Þrótti V. í 2. deildinni í fyrra nái sama takti með uppeldisfélaginu í Lengjudeildinni.

Dagur Ingi er fjölhæfur og tæknilega góður leikmaður sem fær vonandi margar mínútur í sumar.

Komnir:
Kairo Edwards-John frá Þrótti R.
Kenan Turudija frá Selfossi
Thiago Dylan frá Ítalíu
Tómas Leó Ásgeirsson frá Haukum
Vladimir Dimitrovski frá Georgíu
Örvar Logi Örvarsson frá Stjörnunni (á láni)
Dagur Ingi Hammer Gunnarsson frá Þrótti Vogum (var á láni)
Hilmar Andrew McShane frá Haukum (var á láni)

Farnir:
Dion Acoff til Bandaríkjanna
Laurens Willy Symons til Belgíu
Gabriel Dan Robinson til Bandaríkjanna
Jósef Kristinn Jósefsson hættur
Oddur Ingi Bjarnason í KV (var á láni)
Sigurður Bjartur Hallsson í KR
Sindri Björnsson í Leikni R.
Tiago í Fram
Walid Abdelali til Finnlands
Þröstur Mikael Jónasson í Dalvík/Reyni

Fyrstu leikir Grindavíkur:
6. maí gegn Aftureldingu á útivelli
12. maí gegn Þrótti V. á heimavelli
20. maí gegn Þór á útivelli

Spámenn: Elvar Geir, Guðmundur Aðalsteinn, Rafn Markús, Sæbjörn Steinke, Tómas Þór og Úlfur Blandon.
Athugasemdir
banner
banner