fös 04. júní 2021 19:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lengjudeildin: Mikil skemmtun í Eyjum
Lengjudeildin
ÍBV kom til baka og tók stig.
ÍBV kom til baka og tók stig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV 2 - 2 Kórdrengir
0-1 Þórir Rafn Þórisson ('32 )
0-2 Arnleifur Hjörleifsson ('48 )
1-2 Stefán Ingi Sigurðarson ('60 )
2-2 Jose Enrique Seoane Vergara ('62 )
Rautt spjald: Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, Kórdrengir ('13)
Lestu nánar um leikinn

Jafntefli var niðurstaðan í frábærum leik þegar ÍBV tók á móti Kórdrengjum í Lengjudeild karla.

Gestirnir byrjuðu vel en þeir urðu fyrir áfalli á 13. mínútu leiksins þegar Gunnlaugur Fannar Guðmundsson fékk að líta beint rautt spjald. Hann ýtti eitthvað frá sér í kjölfarið á broti og leikmaður ÍBV lág eftir. Vilhjálmur Alvar lyfti rauða spjaldinu.

Kórdrengir gáfust hins vegar ekki upp þrátt fyrir að vera einum færri. Þeir voru þéttir fyrir og tóku svo forystuna á 32. mínútu. Halldór Páll, markvörður ÍBV, gerði slæm mistök og missti boltann frá sér beint fyrir fætur Þóris Rafns Þórissonar. Hann kláraði og kom gestunum yfir.

Kórdrengir fóru 0-1 yfir inn í hálfleik og snemma í þeim seinni komust þeir í 0-2. Arnleifur Hjörleifsson skoraði þá frábært mark, eitt af mörkum tímabilsins. Hann tók boltann á bringuna og hamraði honum í markið af 25-30 metrum.

Vestmannaeyingar voru hugmyndasnauðir framan af en svo fóru þeir að setja boltann meira út á Felix Örn Friðriksson, vinstri bakvörðinn sinn. Hann átti frábærar lágar fyrirgjafir og það skilaði tveimur mörkum með stuttu millibili. Mörkin voru keimlík, fyrst skoraði Stefán Ingi Sigurðarson og svo bætti Sito við öðru marki.

Eyjamenn náðu hins vegar ekki að fylgja þessu eftir. Þeir voru mikið með boltann en fóru aftur einhvern veginn í gírinn sem þeir voru í í fyrri hálfleiknum og náðu ekki að skapa sér mikið.

Lokatölur 2-2. Bæði lið væntanlega svekkt með þessa niðurstöðu. Kannski skrítið að segja að Kórdrengir séu svekktir þar sem þeir voru einum færri lengst af. Þeir komust hins vegar í 2-0 og missa þá forystu.

Kórdrengir eru í fimmta sæti með átta stig og ÍBV í sjötta sæti með sjö stig. Bæði lið höfðu unnið tvo leiki í röð fyrir leik kvöldsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner