Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 04. ágúst 2021 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Akureyri.net 
„Hlutirnir þróuðust þannig að ég get ekki spilað fyrir þjálfarann"
Jakob spilaði í gær sinn fyrsta leik fyrir KA.
Jakob spilaði í gær sinn fyrsta leik fyrir KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Í heimaleiknum gegn Vestra.
Í heimaleiknum gegn Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það vakti mikla athygli á gluggadeginum, lokadegi félagsskiptagluggans síðasta fimmtudag, þegar Jakob Snær Árnason skipti yfir í KA frá Þór.

Siglfirðingurinn gekk í raðir Þórs árið 2013 og hefur verið á mála hjá félaginu síðan. Jakob er 24 ára kantmaður og lék hann sinn fyrsta leik með KA þegar hann kom inn á gegn Keflavík í gær. Það var fyrsti leikur Jakobs í efstu deild á ferlinum.

Lestu um leikinn: KA 2 -  1 Keflavík

Hann var nálægt því að leggja upp mark fyrir Hallgrím Mar og á 92. mínútu fékk hann tækifæri til að skora.

„Frábær björgun hjá Davíð Snæ! Jakob Snær hársbreidd frá því að skora sitt fyrsta mark fyrir KA og þar með gera út um leikinn!" skrifaði Daníel Smári Magnússon sem textalýsti leiknum hér á Fótbolta.net.

Jakob var samningsbundinn Þór út tímabilið 2022 og spilaði ellefu leiki í Lengjudeildinni í sumar og skoraði tvö mörk. Hann ræddi við Akureyri.net í kjölfar vistaskiptanna.

„Þetta er í raun og veru svolítið viðkvæmt. Það kom upp trúnaðarbrestur á milli mín og þjálfarans og á endanum varð það að samkomulagi að ég myndi yfirgefa félagið. Þegar mér bauðst svo að fara í KA ákvað ég að horfa bara á minn feril; ég er metnaðarfullur, leit á þetta sem rétta skrefið fyrir mig og er mjög spenntur. Ég hef aldrei spilað í efstu deild en tel mig geta bætt KA-liðið og gefið því styrk til að ná sínum markmiðum," sagði Jakob við Skapta Hallgrímsson á Akureyri.net.

„Það er svekkjandi að svona skyldi fara og ég veit að fólk getur orðið sárt, bæði yfir því að ég sé að fara og yfir því hvert ég fer. Ég átti frábær ár í Þór og þakka öllum fyrir stuðninginn og traustið á þeim tíma. Fólk þekkir mig og veit að ég lagði mig alltaf fram – gerði alltaf mitt besta. Ég er alls ekki fúll út í klúbbinn en hlutirnir þróuðust þannig að ég get ekki spilað fyrir þjálfarann og ég vona að fólk sýni þessu skilning," sagði Jakob.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner