fös 04. september 2020 22:20
Ívan Guðjón Baldursson
Alex Þór ánægður eftir sigurinn: Ísak og Róbert óaðfinnanlegir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alex Þór Hauksson átti frábæran leik er U21 landslið Íslands vann gríðarlega mikilvægan heimaleik gegn Svíþjóð í undankeppni fyrir EM.

Alex Þór er fæddur 1999 og ber fyrirliðaband Stjörnunnar í Pepsi Max-deildinni. Hann er lykilmaður í U21 liði Íslands sem er í þriðja sæti undanriðilsins og í dauðafæri á að blanda sér í toppbaráttuna.

„Við erum alveg í skýjunum, búnir að fagna vel inní klefa og láta í okkur heyra. Við erum bókstaflega í skýjunum með þetta. Þetta var frábær vinnusigur frá a til ö, það gerðu allir sitt og við uppskárum eftir því," sagði Alex Þór í samtali við KSÍ að leikslokum.

„Við mundum alveg tilfinninguna hvernig var að koma inn í klefa eftir fyrri leikinn. Allt frá þeirri stundu vorum við staðráðnir í því að sýna þeim hvað við getum þegar þeir kæmu hingað. Munurinn á leikjunum er að í dag fylgdum við leikskipulaginu 100%, við fáum ekki marga daga saman þetta eru bara einhverjir þrír, fjórir dagar."

Hinir efnilegu Róbert Orri Þorkelsson og Ísak Bergmann Jóhannesson spiluðu sinn fyrsta leik fyrir U21 liðið og var Alex Þór hæstánægður með þeirra framlag. Ísak átti fyrirgjöfina sem rataði á koll Sveins Arons Guðjohnsen í sigurmarkinu.

„Ég held ég geti varla hrósað þeim nægilega vel fyrir þennan leik. Þetta var mikilvægur leikur og maður getur ímyndað sér að taugarnar hafi verið miklar við að spila sinn fyrsta leik en það var eins og þeir væru búnir að spila alla leikina hingað til. Þeir voru óaðfinnanlegir í þessum leik."

Næstu leikir Íslands eru í október. 9. október er heimaleikur gegn sterku liði Ítala og 13. október útileikur gegn Lúxemborg.

„Við erum fullir sjálfstrausts. Við erum búnir að sýna að við eigum roð í hvern sem er og erum staðráðnir í því að ná í sex stig úr næsta verkefni."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner