Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 04. september 2022 16:14
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Jafnt í Víkinni - FH klúðraði tveimur vítum
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.

Tveimur fyrstu leikjum dagsins í Bestu deild karla var að ljúka þar sem Víkingur R. þurfti jöfnunarmark í uppbótartíma til að bjarga stigi gegn sprækum gestum úr Vestmannaeyjum.


Eyjamenn komust í tveggja marka forystu snemma leiks áður en Logi Tómasson minnkaði muninn með geggjuðu marki. Andri Rúnar Bjarnason og Arnar Breki Gunnarsson gerðu mörk ÍBV.

Logi var aftur í sviðsljósinu skömmu eftir markið sitt þegar Jón Kristinn Elíasson, markvörður ÍBV, keyrði hann klaufalega niður og fékk beint rautt spjald að launum. Framundan var því klukkustund af ellefu Íslandsmeisturum Víkings gegn tíu Eyjamönnum.

Gestirnir frá Suðurlandi gerðu vel að halda forystunni allt þar til undir lokin þegar Halldór Smári Sigurðsson náði að jafna á lokamínútum uppbótartímans.

Það var mikil dramatík í leiknum þar sem Pétur Guðmundsson dómari átti í stökustu vandræðum með að hafa hemil á mönnum.

Víkingur er jafn KA á stigum í öðru til þriðja sæti deildarinnar eftir þetta jafntefli, níu stigum eftir toppliði Breiðabliks. ÍBV er komið fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Lestu um leikinn

Víkingur R. 2 - 2 ÍBV
0-1 Andri Rúnar Bjarnason ('11)
0-2 Arnar Breki Gunnarsson ('18)
1-2 Logi Tómasson ('28)
2-2 Halldór Smári Sigurðsson ('95)
Rautt spjald: Jón Kristinn Elíasson, ÍBV ('40)

Leiknir R. tók þá á móti FH í fallbaráttunni og úr varð hörkuslagur þar sem ótrúlegt er að boltinn hafi ekki ratað í netið.

Staðan var markalaus eftir þokkalegan fyrri hálfleik og byrjaði seinni hálfleikurinn á vítaspyrnu sem Steven Lennon setti í slána.

FH komst nálægt því að taka forystuna en skoraði ekki og ætlaði allt um koll að keyra þegar Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi vítaspyrnu á lokamínútum uppbótartímans. 

Björn Daníel Sverrisson steig á punktinn í þetta skiptið en Viktor Freyr Sigurðsson varði meistaralega og bjargaði stigi fyrir Leikni.

FH er komið tveimur stigum fyrir ofan fallsæti með þessu jafntefli á meðan Leiknir deilir botnsætinu með ÍA.

Lestu um leikinn

Leiknir R. 0 - 0 FH
0-0 Steven Lennon ('48, misnotað víti)
0-0 Björn Daníel Sverrisson ('96, misnotað víti)


Athugasemdir
banner
banner
banner