Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 04. september 2022 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Carragher: Arthur er ekki svarið fyrir Liverpool
Mynd: Liverpool
Mynd: EPA

Jamie Carragher, fótboltasérfræðingur hjá Sky Sports og fyrrum leikmaður Liverpool, býst ekki við að Arthur Melo geti verið varanleg lausn fyrir vandamálin á miðju Liverpool.


Liverpool er að glíma við meiðslavandræði á miðjunni og krækti í Arthur á tólf mánaða lánssamningi frá Juventus á lokadegi félagsskiptaglugga sumarsins. Carragher býst við stórfelldum breytingu á miðsvæði liðsins næstu tólf mánuðina.

„Arthur er ekki svarið sem Liverpool er að leita eftir á miðjunni. Liverpool þarf yngri og orkumeiri leikmann ef horft er til næstu þriggja eða fjögurra ára. Arthur er bara fenginn til að fylla í skarðið, annars hefði félagið ekki fengið hann í láni heldur keypt hann," segir Carragher.

„Þetta lítur svolítið út eins og það sem gerðist fyrir einu og hálfu ári þegar allir miðverðirnir voru meiddir. Liverpool fékk nokkra miðverði til sín á láni yfir tímabilið en endaði ekki á að kaupa neinn þeirra heldur beið frekar og keypti Ibrahima Konate um sumarið.

„Miðjumaðurinn sem Liverpool vantar er ekki laus eins og staðan er í dag þannig að þetta er líklega gáfulegasta lausnin til að standa svo ekki uppi með auka leikmann.

„Allir stuðningsmenn elska að kaupa nýja leikmenn en það er algjörlega tilgangslaust ef þú finnur svo ekki not fyrir þá. Liverpool vantaði sóknarmann og notaði mikinn pening til að kaupa Darwin Nunez. Svo vantaði Liverpool miðjumann en fann ekki rétt skotmark og ætlar félagið frekar að bíða þar til í janúar eða á næstu leiktíð með að fullkomna miðjuna."

Thiago, Jordan Henderson, Fabinho, Curtis Jones, Naby Keita, Alex Oxlade-Chamberlain, Fabio Carvalho, James Milner og Harvey Elliott geta allir spilað á miðjunni en þrír þeirra eru meiddir og tveir nýkomnir úr meiðslum.

„Liverpool ætlar ekki að missa haus og gera skyndikaup á miðjumönnum þó það vanti nokkra í hópinn. Þeir gætu hafa keypt einhvern miðjumann áður en glugginn lokaði en þeir gerðu það ekki. Félagið mun skipta um mikið af miðjumönnum á næstu tólf mánuðum, það er mikil þörf á endurnýjun."


Athugasemdir
banner