sun 04. september 2022 12:20
Ívan Guðjón Baldursson
Tuchel varar fólk við að dæma Aubameyang útfrá útliti
Auba skrifaði undir tveggja ára samning við Chelsea. Hann skoraði 92 mörk fyrir erkifjendurna og nágrannana í Arsenal.
Auba skrifaði undir tveggja ára samning við Chelsea. Hann skoraði 92 mörk fyrir erkifjendurna og nágrannana í Arsenal.
Mynd: Getty Images

Thomas Tuchel er mjög ánægður með að vera búinn að krækja í Pierre-Emerick Aubameyang, 33 ára sóknarmann, frá Barcelona.


Aubameyang var fyrirliði Arsenal þar til Mikel Arteta tók bandið af honum og leyfði honum að yfirgefa félagið á frjálsri sölu. Hegðunarvandamál Aubameyang eru ekkert leyndarmál, hann er ekki með einbeittan brotavilja en getur verið kærulaus og á það til að mæta alltof seint.

Tuchel þekkir Aubameyang vel eftir að þeir störfuðu saman hjá Borussia Dortmund frá 2015 til 2017. Hann varar fólk við því að dæma leikmanninn útfrá útliti þar sem hann er með nokkuð sérstakan fatastíl og elskar hraðskreiða og rándýra bíla.

„Hann er þessi týpa af manneskju sem allir vilja tala um og vera í kringum. Það þurfa ekki allir að klæðast dökkbláu og ganga um með leiðinlega derhúfu! Það er alveg hægt að vera með netta klippingu og flottan bíl," sagði Tuchel.

„Það má ekki dæma fólk alltof snemma, þetta er vandamál í dag. Fólk horfir á bílinn hans eða fötin og hugsar í sömu andrá um að það sé ófagmannleg hegðun. Það er ekki rétt. Hann er kannski bara aðeins klikkaðari en restin af okkur og það er ekkert að því. Það er mikilvægt að vera frábrugðinn fjöldanum utan vallar til að vera sérstakur innan hans.

„Miðað við alla þá athyglina sem hann hefur fengið í gegnum tíðina og markafjöldann sem hann hefur skorað þá er hann mjög góð nía sem kann að haga sér vel. Hann hagaði sér vel undir minni stjórn hjá Dortmund og ég hef engar efasemdir um að hann muni haga sér vel hérna."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner