sun 04. september 2022 12:40
Ívan Guðjón Baldursson
Xavi svekktur að missa Auba: Fyrirmynd og gull af manni
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Xavi Hernandez, fyrrum miðjumaður og núverandi þjálfari Barcelona, segist vera svekktur með að hafa misst Pierre-Emerick Aubameyang til Chelsea.


Börsungar voru með alltof mikið af sóknarmönnum og þá vantaði vinstri bakvörð. Þess vegna kræktu þeir í Marcos Alonso frá Chelsea og sendu Aubameyang í hina áttina, auk þess að fá 12 milljónir evra í kassann fyrir skiptin.

„Ég er svekktur því hann kom hingað inn og hjálpaði okkur mikið á stuttum tíma. Hann var fyrirmynd innan og utan vallar og skipti sköpum fyrir okkur - skoðið bara tölfræðina hans," sagði Xavi.

„Hann er gull af manni og alltaf með bros á vör. Það er synd að missa hann því maður vill alltaf hafa þessa tegund af leikmanni í hópnum, en þetta er spennandi tækifæri fyrir hann.

„Þegar allt kemur til alls eru allir aðilar sáttir með þessi félagsskipti en mér líður illa sem þjálfara að missa svona leikmann. Hann var mikilvægur hlekkur í liðinu og alvöru fyrirmynd."

Aubameyang skoraði 11 mörk í 17 deildarleikjum með Barcelona á árinu en missti byrjunarliðssæti sitt til Robert Lewandowski sem var keyptur í sumar. Lewandowski er kominn með fimm mörk í fjórum leikjum með Barca.

Memphis Depay er varaskeifa fyrir Lewandowski eftir að Daninn Martin Braithwaite samdi um starfslok og skipti til nágrannanna Espanyol.


Athugasemdir
banner
banner
banner