sun 04. október 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bandaríkin: New York hafði betur gegn Inter Miami
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Inter Miami 2 - 3 New York City
0-1 Ionut Mitrita ('4)
1-1 Lewis Morgan ('27)
1-2 Anton Tinnerholm ('35)
2-2 Lewis Morgan ('38)
2-3 Ionut Mitrita ('43)

Inter Miami og New York City FC mættust í hörkuleik í bandarísku MLS deildinni þar sem Blaise Matuidi og Gonzalo Higuain byrjuðu saman í liði Inter.

Fyrri hálfleikurinn var afar fjörugur þar sem liðin skiptust á að skora. Rúmenski framherjinn Alexandru Ionut Mitrita kom New York yfir snemma leiks en Lewis Morgan, fyrrum leikmaður Sunderland og Celtic, jafnaði á 27. mínútu.

Anton Tinnerholm kom New York aftur yfir en Morgan jafnaði skömmu síðar, í þetta sinn eftir stoðsendingu frá Higuain. Það leið þó ekki á löngu þar til Mitrita gerði þriðja mark New York.

Seinni hálfleikurinn var ansi bragðdaufur þar sem varnarleikur New York var til sóma. Guðmundur Þórarinsson fékk að koma inn seint í uppbótartíma en hann hefur verið mikið í kringum byrjunarliðið að undanförnu.

Til gamans má geta að þetta var þriðja tapið í röð hjá stjörnum prýddu lið Inter Miami. Finnski miðjumaðurinn Alexander Ring, fyrrum leikmaður Kaiserslautern, lagði upp öll mörk New York í leiknum.

New York er í fimmta sæti eftir sigurinn og á góðri leið með að ná sæti sem gefur þátttökurétt í undankeppnina.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner