sun 04. október 2020 10:22
Ívan Guðjón Baldursson
Kean fer til PSG að láni - Choupo-Moting til Bayern
Moise Kean náði sér aldrei á strik hjá Everton.
Moise Kean náði sér aldrei á strik hjá Everton.
Mynd: Getty Images
Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain eru búnir að tryggja sér ítalska ungstirnið Moise Kean á eins árs lánssamning frá Everton. Fabrizio Romano greinir frá þessu.

Kean er aðeins tvítugur en hann var keyptur til Everton í fyrra, fyrir 30 milljónir evra. Hann hefur komið við sögu í 37 leikjum hjá félaginu en er aðeins búinn að skora fjögur mörk og er ekki með fast sæti í liðinu. Kean er á viðkvæmum aldri og þarf spiltíma til að þróa sinn leik en ólíklegt er að hann fái mikið af tækifærum með aðalliði PSG.

Kean er fenginn til PSG sem varamaður fyrir Mauro Icardi þar sem Eric Maxim Choupo-Moting er samningslaus eftir tvö ár hjá PSG.

Franskir fjölmiðlar greina frá því að umboðsmaður Choupo-Moting sé nýbúinn að bjóða hann til FC Bayern sem varaskeifu og að Evrópumeistararnir séu að hugsa málið.

Choupo-Moting, sem er 31 árs, myndi skrifa undir tveggja ára samning við Bayern sem er með alltof þunnan leikmannahóp. Auk sóknarmanns vatnar liðinu bakvörð, miðjumann og kantmann.
Athugasemdir
banner
banner
banner