banner
   sun 04. október 2020 16:00
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi Max-deildin: Steven Lennon með þrennu á Akranesi
Mynd: Hulda Margrét
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Steven Lennon setti þrennu er FH vann sannfærandi sigur á Akranesi í Pepsi Max-deild karla í dag.

Fyrsta markið skoraði Lennon eftir fyrirgjöf frá Pétri Viðarssyni í fyrri hálfleik og var leikurinn nokkuð rólegur fram að næsta marki. Það kom á 76. mínútu þegar Jónatan Ingi Jónsson skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Baldri Loga Guðlaugssyni.

Skömmu síðar skoraði Lennon úr vítaspyrnu og fullkomnaði hann þrennuna gegn andlausum Skagamönnum á 90. mínútu, eftir aðra stoðsendingu frá Baldri Loga.

Hafnfirðingar ætla sér að halda öðru sæti deildarinnar til að taka þátt í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

ÍA 0 - 4 FH
0-1 Steven Lennon ('34)
0-2 Jónatan Ingi Jónsson ('76)
0-3 Steven Lennon ('79, víti)
0-4 Steven Lennon ('90)

Víkingur R. tók þá á móti KA á sama tíma og byrjuðu heimamenn af krafti. Þeir komust nálægt því að skora en það voru gestirnir frá Akureyri sem tóku forystuna.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði þá eftir langt innkast en varnarmenn Víkings virtust ekki vera tilbúnir fyrir innkastið.

Víkingur hélt áfram að stjórna hraðanum án þess að skapa færi en skyndisóknir KA voru hættulegar. Það var þó Kwame Quee sem náði að jafna skömmu fyrir leikhlé eftir sendingu frá Adam Ægi Pálssyni.

Síðari hálfleikurinn var nokkuð flatur til að byrja með en KA tók forystuna á 75. mínútu þegar Steinþór Freyr Þorsteinsson skoraði. Skömmu síðar jöfnuðu Víkingar á nýjan leik, Helgi Guðjónsson skoraði eftir atgang í kjölfar hornspyrnu.

Þetta var fyrsta mark Helga í efstu deild en meira var ekki skorað og lokatölur urðu 2-2. Bæði lið sigla lygnan sjó í neðri hluta deildarinnar ásamt ÍA.

Víkingur R. 2 - 2 KA
0-1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson ('19)
1-1 Kwame Quee ('43)
1-2 Steinþór Freyr Þorsteinsson ('75)
2-2 Helgi Guðjónsson ('76)

Það getur tekið tíma fyrir stöðutöfluna að uppfærast.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner