Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 04. október 2021 10:47
Elvar Geir Magnússon
Heimild: 433.is 
Jói Berg ósáttur með vinnubrögð KSÍ - Hafði áhrif á ákvörðunina að draga sig út
Icelandair
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg Guðmundsson dró sig út úr landsliðshópnum fyrir komandi leiki þar sem hann er tæpur vegna nárameiðsla.

Í viðtali við 433.is viðurkennir hann þó að vera óánægður með vinnubrögð KSÍ og það hafi haft áhrif á ákvörðunina að gefa ekki kost á sér.

„Ég ákvað að draga mig úr hópnum þar sem ég er tæpur í náranum eftir leikinn með Burnley um helgina. Ég hef oft fórnað ýmsu fyrir landsliðið, enda hef ég alltaf litið á það sem mikinn heiður að spila fyrir þjóð mína. Ég hef þar af leiðandi oft lagt mikið á mig og jafnvel fórnað líkamlegu ástandi mínu hjá félagsliði fyrir landsliðið," segir Jóhann við Hörð Snævar Jónsson.

„Ég get alveg viðurkennt að það hafði áhrif á ákvörðun mína í þetta sinn að ég hef ekki verið fyllilega sáttur við vinnubrögð sambandsins undafarin misseri. Meginástæðan er samt sú að ég er tæpur og vil gera allt til þess að vera í mínu besta formi með Burnley á þessu tímabili."

Jóhann Berg, sem hefur verið einn besti leikmaður Íslands um margra ára skeið, lék 30 mínútur með Burnley í markalausu jafntefli gegn Norwich um helgina.

Hann var upphaflega valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir komandi leiki í undankeppni HM, gegn Armeníu á föstudag og Liechtenstein á mánudaginn en í gær var opinberað að hann færi ekki í verkefnið.

Það hefur mikið gustað í kringum KSÍ og Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari sagði á fréttamannafundi að það hafi verið sín ákvörðun að velja Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliða ekki í hópinn. Aron Einar gagnrýndi KSÍ með yfirlýsingu í kjölfarið.
Athugasemdir
banner
banner