Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 04. október 2021 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Miðvarðavesen í landsliðinu - Hver kemur inn fyrir Jón Guðna?
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska landsliðsins
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska landsliðsins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Óli Ólafsson er líklegur kostur
Ísak Óli Ólafsson er líklegur kostur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Damir Muminovic hefur verið einn besti varnarmaður Pepsi Max-deildarinnar síðasta áratuginn eða svo
Damir Muminovic hefur verið einn besti varnarmaður Pepsi Max-deildarinnar síðasta áratuginn eða svo
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Finnur Tómas Pálmason er líklegur
Finnur Tómas Pálmason er líklegur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmar Örn er frábær varnarmaður og gæti snúið aftur
Hólmar Örn er frábær varnarmaður og gæti snúið aftur
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Halldór Smári einn reyndasti leikmaður Víkings og hefur fullt fram að færa
Halldór Smári einn reyndasti leikmaður Víkings og hefur fullt fram að færa
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar SIgurðsson verið einn besti leikmaður Íslands síðasta áratuginn og ekki hægt að útiloka endurkomu frá honum
Ragnar SIgurðsson verið einn besti leikmaður Íslands síðasta áratuginn og ekki hægt að útiloka endurkomu frá honum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðshópurinn fyrir landsleikina gegn Armeníu og Liechtenstein var kynntur á föstudag en tveir leikmenn eru dottnir úr hópnum vegna meiðsla. Jóhann Berg Guðmundsson dró sig úr hóp og þá meiddist Jón Guðni Fjóluson illa í leik með Hammarby en hvaða miðvörður gæti komið inn í hópinn fyrir leikina?

Staðan er þannig að aðeins þrír miðverðir eru í hópnum. Það eru þeir Brynjar Ingi Bjarnason, Hjörtur Hermannsson og Ari Leifsson en sá síðastnefndi á aðeins einn landsleik.

Brynjar Ingi er ekki með mikla reynslu úr landsliðinu en spilar þó eins og hann hafi verið þarna í mörg ár og hefur fest sæti sitt. Hjörtur er að spila sem hægri bakvörður fyrir ítalska B-deildarliðið Pisa en hefur verið hugsaður sem miðvörður hjá landsliðinu.

Kári Árnason verður ekki með í þessu landsliðsverkefni og hefur líklega spilað sinn síðasta landsleik. Hann hættir eftir bikarúrslitaleikinn gegn ÍA þann 16. október. Hörður Björgvin Magnússon og Sverrir Ingi Ingason eru þá báðir meiddir. Hörður gæti byrjað að spila aftur með CSKA Moskvu síðar í þessum mánuði eða í byrjun næsta mánaðar.

Þetta er mikill höfuðverkur fyrir Arnar Þór Viðarsson og Eið Smára Guðjohnsen, þjálfara A-landsliðsins, en það gæti reynst erfitt fyrir þá að taka miðvörð úr U21 árs landsliðinu.

Finnur Tómas Pálmason og Ísak Óli Ólafsson eru báðir í U21 árs landsliðinu sem mætir Portúgal þann 12. október. Róbert Orri Þorkelsson, leikmaður Montreal í MLS-deildinni, er meiddur og ekki í hóp og því þörf á miðvörðum þar. En hverjir eru líklegastir til að koma inn?

Fyrir utan Ísak Óla og Finn Tómas þá eru nokkur nöfn sem Arnar og Eiður gætu horft til. Það er svo alltaf möguleiki á því að þjálfararnir ákveði að halda hópnum eins og hann er eða bæta við í aðrar stöður. Það kemur þó allt í ljós í dag eða á morgun.

Damir Muminovic (Breiðablik): Hann hefur verið einn stöðugasti varnarmaðurinn í Pepsi Max-deildinni síðustu ár. Hann var í liði ársins þetta árið, sem og 2015 og 2016.



Hólmar Örn Eyjólfsson (Rosenborg): Hólmar hætti að gefa kost á sér í landsliðið í ágúst. Hann vill einbeita sér að félagsliði sínu og gefa sér meiri tíma til fjölskyldunnar. Hólmar gæti mögulega skoðað málið ef þörf er á honum. Hann er fastamaður í einu besta liði Noregs og væri það auðvitað borðliggjandi að fá hann inn í hópinn, enda með 19 landsleiki á bakinu og 66 leiki fyrir yngri landsliðin.



Axel Óskar Andrésson (Riga): Axel er gríðarlega öflugur og gæti verið góður kostur. Hann er þó nýstigin upp úr meiðslum og hefur aðeins spilað 74 mínútur í síðustu fjórum deildarleikjum.

Halldór Smári Sigurðsson (Víkingur R.): Reynsla í honum. Búinn að vera óaðfinnanlegur í Íslands- og bikarmeistaraliði Víkings. Gott að minna á það að Kevin Davies spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir England þegar hann var 33 ára.



Eiður Aron Sigurbjörnsson (ÍBV): Hjálpaði Eyjamönnum að komast upp í deild þeirra bestu og á líka einn A-landsleik að baki þar sem hann spilaði 70 mínútur í 2-2 jafntefli gegn Svíum fyrir tveimur og hálfu áru síðan.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson (KR): Það er alltaf hægt að treysta á hann. Skilar alltaf sínu og á tólf landsleiki fyrir A-landsliðið. Kæmi inn með mikla reynslu og gæti sannarlega verið þörf á henni.



Ragnar Sigurðsson (Fylkir): Raggi er alltaf í myndinni og hefur ekki opinberlega sagt að hann sé hættur. Arnar sagði á blaðamannafundi að hann taldi aðra varnarmenn betur til þess fallna að taka á þessu verkefni. Það þykir afar ólíklegt að hann komi inn en ekki útilokað.



Birkir Heimisson (Valur): Birkir spilar mest megnis á miðjunni og gerði það með Val í sumar en hann lék í miðverðinum gegn Grikklandi með U21 árs landsliðinu í síðasta leik og gerði það með prýði. Spilaði einnig þetta hlutverk með U19 ára landsliðinu og þekkir því stöðuna vel.

Íslenska liðið byrjar að æfa í dag en fyrsti leikurinn er gegn Armeníu á föstudag á Laugardalsvelli og seinni leikurinn við Liechtenstein er mánudaginn 11. október.

Sjá einnig:
KSÍ staðfestir að Jón Guðni og Jóhann Berg verði ekki með í komandi leikjum
Landsliðshópurinn: Fimm ný nöfn
Athugasemdir
banner
banner
banner