fös 04. nóvember 2022 16:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Við erum að skoða það að fá einn sem ég þekki vel"
Birgir Baldvinsson.
Birgir Baldvinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrr í dag var sagt frá því að vinstri bakvörðurinn Birgir Baldvinsson væri að ganga í raðir Vals.

Frá þessu greinir Kristján Óli Sigurðsson, einn af umsjónarmönnum Þungavigtarinnar, á Twitter. Hann og Arnar Grétarsson þjálfari Vals eru góðir vinir.

Sigurður Heiðar Höskuldsson, sem þjálfaði Birgi hjá Leikni í sumar og er nú orðinn aðstoðrþjálfari Vals, var spurður að því í hlaðvarpi fyrr í dag hvort hann væri að sækja leikmann úr Leikni.

Við því sagði hann: „Við erum að skoða það að fá einn sem ég þekki vel."

Birgir er 21 árs vinstri bakvörður sem uppalinn er hjá KA og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik sumarið 2018. Hann hefur spilað með Leikni í Breiðholti á lánssamningi síðustu þrjú ár.

Eftir fall Leiknis ákvað Birgir að halda áfram að spila í Bestu deildinni. KA vildi semja við hann aftur og þá hafði Stjarnan einnig áhuga á honum.

Hægt er að hlusta á spjallið við Sigga Höskulds í spilaranum hér að neðan en þar talar hann um að Valur stefni á að vera með sterkasta hóp deildarinnar á næstu leiktíð.
Siggi Höskulds gerir upp tíma sinn í Breiðholtinu
Athugasemdir
banner
banner