banner
   mið 05. febrúar 2020 11:13
Elvar Geir Magnússon
Telja að sambandsslitin hafi áhrif á frammistöðu Kepa
Andrea Perez og Kepa Arrizabalaga.
Andrea Perez og Kepa Arrizabalaga.
Mynd: Instagram
Kepa Arrizabalaga, markvörður Chelsea, er búinn að missa byrjunarliðssæti sitt eftir dapra frammistöðu.

Spænska blaðið El Mundo segir að nánustu vinir og ættingjar Kepa telji að sambandsslit hans við æskuástina hafi haft neikvæð áhrif á frammistöðu hans.

Kepa og Andrea Perez höfðu verið saman í sjö ár þegar markvörðurinn flutti til London í ágúst 2018.

Kepa var aldrei feiminn við að sýna heiminum unnustu sína og birti fjölda mynda og myndbanda af þeim saman á samfélagsmiðlum.

Haft er eftir ónefndum vini Kepa að hann sé í mikilli ástarsorg. Andrea hafi flutt með honum til Lundúna og hafi verið hans stoð og stytta þar til sambandinu lauk nýlega.

„Foreldrar hans, sem lifa í Ondarroa í Baskalandi, reyna að eyða tíma með honum en tilfinningalega er hann langt niðri núna," segir vinurinn.

Kepa var keyptur til Chelsea á 71 milljón punda en samkvæmt tölfræði sem var opinberuð í síðasta mánuði er hann með slökustu hlutfallsmarkvörslu í ensku úrvalsdeildinni.

Talað er um að hinn reynslumikli Willy Caballero verði aðalmarkvörður Chelsea til loka tímabils en Frank Lampard vilji fá nýjan markvörð fyrir næsta tímabil.
Athugasemdir
banner
banner
banner