Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 05. maí 2020 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Capello: Ættum að klára þetta eins og HM
Mynd: Getty Images
Fabio Capello, fyrrum þjálfari Roma, Milan, Juventus, Real Madrid og enska landsliðsins, vill að ítalska deildartímabilið verði klárað eins og ef um stórmót væri að ræða. Hann vill sjá öll félög efstu deildar koma saman og klára leiktíðina á 40 dögum.

Ítölsk félög fengu grænt ljós á einstaklingsæfingar í gær og keppast félög við að prófa leikmenn við kórónuveirunni. Stefnt er að hefja tímabilið aftur um miðjan júní en sú dagsetning gæti verið færð aftur.

Hugmyndin um að nota hlutlausa velli til að klára tímabilið hefur fengið mikinn meðbyr bæði á Ítalíu og Englandi en Capello vill fara skrefi lengra.

„Við ættum að klára þetta eins og HM; leikmenn og starfsmenn ættu að vera lokaðir frá almenningi í 40 daga til að klára tímabilið," sagði Capello í útvarpsviðtali á Rai 1 Radio.

„Það er mikilvægt að setja knattspyrnuheiminn aftur í gang, hann mun hjálpa almenningi ólýsanlega mikið á þessum erfiðu tímum."

Capello styður einnig þá hugmynd að fjölga skiptingum þar sem leikmenn þyrftu að spila á tveggja til þriggja daga fresti til að klára tímabilið tímanlega.

„Persónulega finnst mér eins og það ætti að leyfa fjórar eða fimm skiptingar til að koma til móts við leikmenn sem þurfa að spila á þriggja daga fresti."

Tæplega 30 þúsund Ítalir hafa látist vegna kórónuveirunnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner