banner
   þri 05. maí 2020 15:40
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Stöð 2 Sport 
HK hefur ekkert styrkt sig - „Erum með veikari hóp"
Brynjar Björn Gunnarsson vill auka breiddina í hópnum.
Brynjar Björn Gunnarsson vill auka breiddina í hópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar segir að Valgeir verði  með HK í sumar.
Brynjar segir að Valgeir verði með HK í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK vill auka breiddina og samkeppnina í hópnum. Þetta sagði hann í viðtali við Sportið í dag á Stöð 2 Sport.

HK, sem hafnaði í 9. sæti Pepsi Max-deildarinnar í fyrra, hefur ekkert styrkt sig fyrir komandi tímabili en leikmenn hafa horfið á braut.

Brynjar segir að helst þurfi að auka breiddina í varnarlínunni og þá vill hann fá til sín vinstri bakvörð þar sem Hörður Árnason hefur lagt skóna á hilluna.

„Ég vona að við fáum að bæta aðeins í. Á sama tíma er ég búinn undir það að fara inn í mótið með þennan hóp," segir Brynjar í viðtalinu við Stöð 2 Sport en leikið verður mjög þétt í sumar.

„Það þýðir lítið að vinna með 'ef og hefði'. Við höfum reynt við leikmenn en ekki náð í þá menn sem við vildum ná í. Akkúrat í dag erum við með áþekkt lið og í fyrra en veikari hóp. Eins og mótið mun spilast þarftu að vera með dýpt í hópnum."

Brynjar segir að HK hafi verið byrjað að líta út fyrir landsteinana að liðsstyrk þegar kórónaveirufaraldurinn stöðvaði fótboltaheiminn.

„Ég var farinn að setja mig í samband við menn út í Englandi og var á leiðinni út að skoða leimenn þegar þetta ástand kom upp."

Umtalaðasti leikmaður HK er hinn 17 ára Valgeir Valgeirsson en mörg félög hafa sýnt honum áhuga.

„Ég ætla að ganga það langt að segja við munum halda honum í sumar. Svo sjáum við eftir tímabilið hvernig staðan verður," segir Brynjar Björn en hann segir mögulegt að annar efnilegur leikmaður, Ari Sigurpálsson sem lánaður var til Bologna, spili með HK-ingum í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Komnir til HK:
Enginn

Farnir frá HK:
Andri Jónasson í Þrótt V.
Björn Berg Bryde í Stjörnuna (Var á láni)
Brynjar Jónasson í Þrótt V.
Emil Atlason í Stjörnuna
Hörður Árnason hættur
Máni Austmann Hilmarsson í Leikni R.
Viktor Bjarki Arnarsson hættur
Athugasemdir
banner
banner
banner