Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 05. júní 2021 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Glódís leiðtogi í landsliðinu - „Búin að dást að henni lengi"
Glódís í landsleik gegn Svíþjóð.
Glódís í landsleik gegn Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsmiðvörður Íslands, er komin í fasta áskrift að liði vikunnar í Svíþjóð hjá Aftonbladet.

Glódís hefur spilað stórt hlutverk í hjarta varnarinnar hjá Rosengård, besta liði Svíþjóðar, á fyrri helmingi tímabilsins. Hún var valin í vikunnar hjá Aftonbladet í þriðja sinn á tímabilinu í gær; hún er komin með fasta áskrift í liðið.

„Þetta er farið að vera pirrandi, en guð minn góður hvað hún er góður miðvörður... hún á nánast skilið að vera í liði vikunnar í hverri viku," var sagt um Glódís.

Það var rætt um þennan frábæra miðvörð í Heimavellinum.

„Að horfa á hana, hún hefur svo róandi áhrif á allt í kringum sig. Nærvera hennar inn á vellinum, ef það má orða það þannig," sagði Björk Björnsdóttir, markvörður HK.

„Hún er greinilega að fara rosalega vel af stað á þessu tímabili. Ég sem hafsent hef alltaf rosalega gaman að því að fylgjast með henni," sagði Lilja Dögg Valþórsdóttir og bætti við:

„Ég er búin að dást að henni lengi. Það er svo gott að hafa hana, hún er svo mikill klettur."

Glódís verður 26 ára á árinu og hefur spilað 91 landsleik. Hún er mikill leiðtogi í íslenska landsliðinu.
Heimavöllurinn: Írarnir koma, U19 í þjálfaraleit og bikarblaður
Athugasemdir
banner