Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   lau 05. júní 2021 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þvílíkir hæfileikar en spurning um rétta augnablikið"
Amanda spilar með besta liði Noregs.
Amanda spilar með besta liði Noregs.
Mynd: Vålerenga
Í leik með yngri landsliðum Íslands.
Í leik með yngri landsliðum Íslands.
Mynd: Getty Images
„Það kom upp umræða, af hverju er hún ekki valin?" sagði Mist Rúnarsdóttir í Heimavellinum.

Það var verið að ræða um Amöndu Andradóttir, 17 ára leikmann Noregsmeistara Vålerenga.

Margir hafa kallað eftir að Amanda, sem er sautján ára gömul, verði valin í A-landslið Íslands. Hún er leikmaður Vålerenga í Noregi og er dóttir Andra Sigþórssonar. Hún er uppalin í Val og Víkingi en fór í atvinnumennsku þegar hún var 15 ára.

Amanda hefur farið vel af stað með norska meistaraliðinu Vålerenga og lagði upp mark í sigurleik á dögunum.

Hún hefur spilað fyrir yngri landslið Íslands en var á dögunum valin í yngri landslið Noregs í fyrsta skipti. Hún var valin í U19 landslið Noregs en það var ekki hægt að velja hana í U19 landslið Íslands að þessu sinni þar sem hún hefði þurft að fara í sóttkví við komuna til landsins.

Ísland er í hættu á að missa af þessum bráðefnilega og hæfileikaríka leikmanni en landsliðsframtíð hennar mun í fyrsta lagi ráðast í september þegar næstu keppnisleikir fara fram.

„Hún er búin að spila með Vålerenga og hún þarf aðeins að sanna sig fyrir A-landsliðið," sagði Lilja Dögg Valþórsdóttir.

„Steini svaraði þessu þannig á blaðamannafundi að hann taldi hana ekki tilbúna fyrir A-liðið. Ástæðan fyrir því að hún væri ekki valin í U19 var sú að U19 er ekki í búbblu. Ef hún ætlaði að koma í það verkefni þá hefði hún þurft að fara í fimm daga sóttkví. Þetta er stuttur landsleikjagluggi og þá hefði hún misst af verkefninu. Þetta er svekkjandi og pirrandi ástæða," sagði Mist.

„Þessi umræða kemur upp því hún er valin í U19 hjá Noregi. Ég held að fólk eigi ekki að fara á taugum. Það er ekki verið að velja hana í A-landslið hjá Noregi. Það er verið að velja hana í U19," sagði Lilja.

„Hún heldur vonandi áfram að bæta sig sem leikmaður og hún hefur vaxið mjög mikið úti. Hún er að spila sig inn í besta liði Noregs. Það fer ekkert á milli mála að þarna eru þvílíkir hæfileikar. Þetta er spurning um rétta augnablikið. Auðvitað viljum við ekkert heitar en að hún spili fyrir Ísland, en þú þarft að vera búin að gera þig aðeins gildandi í meistaraflokksfótbolta áður en þú færð kall í A-landsliðið," sagði Mist.

Ingibjörg Sigurðardóttir, sem er í landsliðinu, spilar með Amöndu hjá Vålerenga.

„Hún er að peppa okkar konu, Amöndu, til að velja Ísland. Hún er í því verkefni fyrir þjóðina. Ingibjörg, þú heldur áfram að sá þínum fræum," sagði Mist.

Hægt er að hlusta á umræðuna alla hér að neðan.
Heimavöllurinn: Írarnir koma, U19 í þjálfaraleit og bikarblaður
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner