Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 05. júlí 2018 15:26
Elvar Geir Magnússon
Maradona biður FIFA afsökunar á ummælum sínum
Maradona hefur verið litríkur í stúkunni í Rússlandi.
Maradona hefur verið litríkur í stúkunni í Rússlandi.
Mynd: Getty Images
„Ég sagði ýmsa hluti og viðurkenni að hluti af þeim eru óásættanlegir," segir Diego Maradona sem hefur beðið FIFA afsökunar á ummælum sínum eftir að England vann Kólumbíu í vítakeppni á HM.

Maradona sagði meðal annars að sigur Englendinga hafi verið þjófnaður og að dómari leiksins, Bandaríkjamaðyrinn Mark Geige, hafi verið hliðhollur enska liðinu.

Hann gagnrýndi FIFA fyrir að hafa látið Geiger á leikinn því hann væri algjörlega óhæfur í leik í þessum stærðarflokki.

„Dómari leiksins veit örugglega mikið um hafnabolta en hann veit ekkert um fótbolta," sagði Maradona meðal annars eftir leikinn.

FIFA sagði að ummælin væru óviðunandi og að sambandið væri algjörlega ósammála því sem hann sagði um dómarann.

Maradona birti afsökunarbeiðnina á Instagram við mynd af sér með Gianni Infantino, forseta FIFA.

„Ég hef algjöra virðingu fyrir því erfiða starfi sem verið er að vinna, bæði af sambandinu og dómurum," skrifaði Maradona.

Honum fannst Geiger hafa átt að dæma brot á Harry Kane áður en hann flautaði Carlos Sanchez brotlegan og England fékk víti. Kane fór á punktinn og kom Englandi yfir.

Í yfirlýsingu FIFA sagði sambandið að það væri leiðinlegt að sjá svona ummæli frá manni sem hefði tekið þátt í að skrifa fótboltasöguna.

Leikmenn Kólumbíu töluðu sjálfir um það eftir leik að Geiger hefði átt í erfiðleikum með að hafa stjórn á leiknum.


Athugasemdir
banner