Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 05. júlí 2021 17:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Yngsti leikmaður í sögu bandarísku deildarinnar
Olivia Moultrie.
Olivia Moultrie.
Mynd: Portland Thorns
Hin 15 ára gamla Olivia Moultrie skráði sig á spjöld sögunnar í tvígang í Bandaríkjunum í síðustu viku.

Í fyrsta lagi þá skrifaði hún undir atvinnumannasamning við Portland Thorns. Hingað til hafa verið reglur um að leikmenn þurfi að vera minnsta kosti 18 ára til að skrifa undir atvinnumannasamning, en dómari sem dæmdi í málinu dæmdi Moultrie og Portland Thorns í hag við dómsuppkvaðningu.

Moultrie er því búin að skrifa undir þriggja ára samning í Portland og fékk hún leikheimild með aðalliðinu.

Hún nýtti þá leikheimild bara strax því hún kom við sögu með aðalliðinu um helgina í 0-2 sigri á Racing Louisville. Hún kom inn á sem varamaður á 83. mínútu og varð yngsti leikmaður í sögu bandarísku kvennadeildarinnar.

Moultrie byrjaði að æfa með Portland Thorns þegar hún var 13 ára og spilaði með liðinu á undirbúningstímabilum. Hún ákvað að sleppa því að fara í háskólaboltann til að reyna að gerast atvinnumaður sem fyrst.

Það eru miklar vonir bundnar við hana, en hún skrifaði undir samning við íþróttavöruframleiðandann Nike þegar hún var aðeins 13 ára. Það eitt og sér segir mikið um það hversu öflug hún er í fótbolta.

Bandaríska deildin er mjög sterk og spila tvær íslenskar landsliðskonur þar. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leikur með Orlando Pride og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir með Houston Dash. Marta, ein besta fótboltakona sögunnar, er liðsfélagi Gunnhildar í Orlando.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner