Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 05. september 2018 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Rauða stjarnan: Það er skylda okkar að vernda Shaqiri
Mynd: Getty Images
Granit Xhaka er einnig af albönskum uppruna og tók þátt.
Granit Xhaka er einnig af albönskum uppruna og tók þátt.
Mynd: Getty Images
Rauða stjarnan mætir Liverpool í dauðariðli í Meistaradeild Evrópu þar sem Paris Saint-Germain og Napoli koma einnig við sögu.

Xherdan Shaqiri verður líklega í leikmannahópi Liverpool gegn Rauðu stjörnunni og lofar Zvezdan Terzic, stjórnarmaður hjá serbneska félaginu, að passa að ekkert slæmt komi fyrir sóknarmanninn sem er hataður í Serbíu um þessar mundir.

Mikill rígur er milli Albaníu og Serbíu eftir áralöng stríð og átök á milli landanna. Shaqiri er kominn af albanskri fjölskyldu eins og margir aðrir Svisslendingar og skoraði hann sigurmark Sviss gegn Serbíu á lokamínútu leiksins á HM í sumar.

Ekki nóg með það, heldur fagnaði Shaqiri með að gera tákn arnarins með tvö höfuð sem prýðir albanska fánann. Markið fór langleiðina með að senda Serbíu heim og voru Serbar brjálaðir yfir fagninu sem þeir telja ögrandi og móðgandi. Shaqiri og félagar voru sektaðir fyrir fagnið.

„Persónulega get ég ekki ímyndað mér Albana í treyju Rauðu stjörnunnar. Rauða stjarnan er serbneskt félag," segir Terzic.

„Shaqiri verður undir mikilli pressu sálfræðilega því hann veit að hann er á útivelli í hjarta Serbíu. Ég efast um að hann spili leikinn."

Terzic kallar eftir því að stuðningsmenn Rauðu stjörnunnar hagi sér vel og reyni ekki að skaða Shaqiri á neinn hátt.

„Við erum knattspyrnufélag og hugsum ekki um fortíðina. Við viljum vera góðir gestgjafar og þurfum að gera allt í okkar valdi til að láta Shaqiri líða eðlilega. Það er skylda okkar að vernda hann í ófyrirséðum aðstæðum."
Athugasemdir
banner