sun 05. september 2021 18:12
Brynjar Ingi Erluson
Birkir Már: Það er dýrmætt
Icelandair
Birkir Már Sævarsson í leiknum í kvöld
Birkir Már Sævarsson í leiknum í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson spilaði sinn 100. landsleik í 2-2 jafnteflinu gegn Norður Makedóníu í kvöld en hann var ánægður með karakterinn undir lokin. Hann ræddi við RÚV strax eftir leik.

Frammistaðan í fyrri hálfleik var afleit. Elgjan Alioski bætti við öðru marki Makedóna þegar tíu mínútur voru búnar af þeim síðari en það kom kraftur á síðasta korterinu.

Brynjar Ingi Bjarnason minnkaði muninn eftir aukaspyrnu frá Alberti Guðmundssyni. Það var svo Andri Lucas Guðjohnsen sem jafnaði á 84. mínútu eftir stoðsendingu frá Albert.

„Hann var ekkert sérstakur framan af. Lélegur leikur hjá okkur en síðustu tuttugu eða þrjátíu voru fínar. Varamennirnir komu inn með hellingskraft og frábær að menn komi inn og gefi svona af sér. Það er dýrmætt," sagði Birkir Már við RÚV.

Kári Árnason var fyrirliði í dag og lét menn heyra það reglulega í leiknum en það er ekkert nýtt segir Birkir.

„Nei, ekkert nýtt að Kári sé að tuska menn til. Þegar menn fylgjast með deildinni hér heima þá heyrir maður yfirleitt í Kára garga eitthvað. Það er ekkert nýtt og hann var fyrirliði og stjórnar liðinu, þannig eðlilegt að hann láti menn heyra það þegar spilamennskan er ekki upp á mikla fiska."

Það var mikill karakter í lokin og var Birkir sérstaklega ánægður með varamennina.

„Þetta er ótrúlega þungt og þung stemning yfir öllu samfélaginu. Það er alltaf gaman að koma í landsliðið og spila leiki. Ótrúlega stoltur að fá að vera partur af þessu."

„Ekki spurning. Frábær karakter sem liðið sýndi. Leit ekkert sérstaklega vel út eftir að þeir skoruðu seinna markið. Frabær innkoma hjá varamönnunum og við stigum upp í lokin og gerðum það vel,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner