Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 05. september 2021 18:01
Brynjar Ingi Erluson
Neistinn kviknaði undir lokin gegn Norður Makedóníu
Icelandair
Ísland gerði 2-2 jafntefli við Norður Makedóníu
Ísland gerði 2-2 jafntefli við Norður Makedóníu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Lucas skoraði jöfnunarmarkið. Fyrsta mark hans fyrir Ísland
Andri Lucas skoraði jöfnunarmarkið. Fyrsta mark hans fyrir Ísland
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 2 - 2 Norður-Makedónía
0-1 Darko Velkoski ('12 )
0-2 Ezgjan Alioski ('55 )
1-2 Brynjar Ingi Bjarnason ('78 )
2-2 Andri Lucas Guðjohnsen ('84 )
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið gerði 2-2 jafntefli við Norður Makedóníu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld. Íslenska liðið lifnaði við á síðasta stundarfjórðungnum eftir afar slaka frammistöðu í fyrri hálfleiknum.

Byrjunin var fín. Albert Guðmundsson kom sér í ágætis færi en skaut boltanum yfir markið.

Eftir það varð þetta andlaust. Gestirnir fengu tvær hornspyrnu þar sem svæðisvörnin klikkaði í bæði skiptin. Darko Velkovski skoraði með skalla í seinni tilrauninni, boltinn undir Rúnar Alex Rúnarsson og í netið.

Norður Makedónía fékk nokkur álitleg færi á meðan íslenska liðið skapaði sér ekkert af viti. Arfaslök frammistaða í fyrri hálfleiknum.

Ezgjan Alioski bætti við öðru þegar tíu mínútur voru búnar af síðari hálfleiknum. Hann var með boltann fyrir utan teiginn, lét vaða í fjærhornið. Rúnar Alex náði ekki að teygja sig í boltann sem fór upp við stöngina og inn.

Kári Árnason skoraði með skalla á 64. mínútu en markið dæmt af vegna rangstöðu. VAR skoðaði markið og tók sér dágóðan tíma áður en það var dæmt af.

Það kom aðeins meira líf í þetta hjá íslenska liðinu. Albert kom sér í kjörið færi en kom boltanum ekki á markið. Nokkrum mínútum síðar kom fyrsta markið í þessu verkefni.

Brynjar Ingi Bjarnason gerði það. Albert átti aukaspyrnu sem markvörður gestanna varði út á Brynjar, sem skoraði af stuttu færi. VAR skoðaði markið en engin rangstaða.

Makedónar gátu gert út um leikinn mínútu síðar en skot Aleksandar Trajkovski fór í innanverða stöngina.

Andri Lucas Guðjohnsen kom inná sem varamaður á 82. mínútu og lét hann strax að sér kveða. Hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark tveimur mínútum síðar eftir góðan undirbúning frá Alberti Guðmundssyni.

Hann fetar í fótspor afa síns og föður síns og tryggði þar með Íslandi stig gegn Norður Makedóníu.

Íslenska liðið var stöðug ógn eftir jöfnunarmarkið. Strákarnir sköpuðu sér mikið á meðan gestirnir fengu eitt hættulegt færi þar sem Brynjar Ingi bjargaði á línu.

Lokatölur í dag 2-2. Íslenska liðið fær stig. Eftir andlausan fyrri hálfleik og fyrri hluta síðari hálfleiks kom liðið með kraft í þetta og náði í tvö mörk. Ísland er með fjögur stig í fimmta sæti eftir fimm leiki.
Athugasemdir
banner
banner