banner
   þri 05. október 2021 15:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Arnar um fundinn með Vöndu: Þarft ekki að vinna hjá NASA til að sjá þetta
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar og Arnar á fréttamannafundi fyrr á þessu ári.
Aron Einar og Arnar á fréttamannafundi fyrr á þessu ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vanda Sigurgeirsdóttir var til viðtals á Sprengisandi á sunnudag, degi eftir að hún var kjörin formaður KSÍ. Í viðtalinu greindi hún frá því að landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson hafi óskað eftir því að ræða við hana í síðustu viku varðandi Aron Einar Gunnarsson. Arnar sagði við Vöndu að hann ætlaði ekki að velja Aron.

Aron er, eins og flestir vita, ekki í landsliðshópnum að þessu sinni. Hann er til rannsóknar vegna atburðar sem átti sér stað fyrir tíu árum.

Sjá einnig:
Arnar óskaði eftir því að ræða við Vöndu - „Ætlaði ekki að velja Aron"

Á Teams-fréttamannafundi var Arnar spurður út í þennan fund með Vöndu. Hvað fór þeirra á milli á þeim fundi?

„Ég flaug til Íslands á þriðjudaginn og Aron Einar tilkynnti á þriðjudag að hann gæfi kost á sér í landsliðið. Við þurftum að fá upplýsingar til að taka ákvörðun um að velja Aron eða ekki. Ég byrjaði á því að funda með fráfarandi stjórn og talaði svo við Vöndu. Ég útskýrði fyrir henni hvaða möguleika við höfðum akkúrat á þeirri stundu," segir Arnar.

„Það vita allir núna hvernig staðan var, á fimmtudaginn var mjög erfitt að útskýra hlutina og ég held að allir skilji það núna. Það er ekki í okkar verkahring að nafngreina fólk. Það er í raun ekki í okkar verkahring að vinna í þessum málum, alveg eins og það er ekki í ykkar verkahring að nafngreina. Ég lagði spillin á borðið við Vöndu og þú þarft ekki að vera vinna fyrir NASA (Geimferðastofnun Bandaríkjanna) til að sjá að þetta var eina ákvörðunin sem við gátum tekið til að vernda liðið okkar, hópinn og Aron Einar."

Tók hann endanlega ákvörðun um að velja Aron ekki eftir að hafa fundað með Vöndu?

„Nei, Vanda var bara mjög heiðarleg með að hún var ekki orðin formaður þá. Stjórnin sem var kosin á laugardaginn var ekki tekin til starfa. Vanda hlustaði á það sem ég hafði að segja. Það sem gerðist í síðasta glugga, þegar Kolbeinn var tekinn úr hópnum, er eitthvað sem þú vilt ekki sem þjálfari. Til þess að geta tekið ákvarðanir er gott að geta sett okkur í spor annarra. Við settum okkur í spor nýrrar stjórnar og Vöndu og tókum ákvörðun út frá því sem við fengum að heyra frá fráfarandi stjórn og þeim pælingum sem við vorum sjálfir með. Það eru stundum krefjandi ákvarðanir sem við þurfum að taka og við tökum þær eftir bestu getu," sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner