Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 05. október 2021 15:00
Hafliði Breiðfjörð
Enginn smitaður í hraðprófum fyrir titilleik Víkinga
Það var gríðarleg stemmning í Víkinni síðustu helgina í september.
Það var gríðarleg stemmning í Víkinni síðustu helgina í september.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur Haraldsson framkvæmdastjóri Víkings að leik loknum.
Haraldur Haraldsson framkvæmdastjóri Víkings að leik loknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Engin smit greindust í hraðprófum fyrir leik Víkings og Leiknis í lokaumferð Pepsi Max-deildar karla 25. september síðastliðinn en Víkingur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigur í leiknum.

Þegar ljóst var að Víkingar gætu tryggt sér titilinn þennan dag var ljóst að ásókn í miða var mjög mikil. Víkingar vildu því hleypa öllum að sem vildu koma. 500 manna samkomutakmörkun var í gildi eins og er núna en undanþága fyrir 1500 ef allir færu í hraðpróf fyrir viðburðinn.

Engin smit úr hraðprófum
Víkingar voru þarna fyrsti aðilinn á Íslandi til að halda viðburð þar sem hraðprófa var krafist en börn voru ekki talin með. 1500 fóru því í hraðpróf vegna leiksins en heildarfjöldi áhorfenda með börnum var 2025.

Sama dag var kosið til alþingis og því fjöldi viðburða í gangi þá um kvöldið. Því var mjög mikið um hraðpróf fram að leiknum.

Dagana fyrir leikinn frá 22. - 25. september voru tekin 4421 hraðpróf að því er kemur fram í svari Ingibjargar Steindórsdóttur verkefnastjóra hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við fyrirspurn Fótbolta.net.

Mið 22. sept: 870 hraðpróf
Fim 23. sept: 850
Fös 24. sept: 1845
Lau 25. sept: 856

„Fjölda jákvæðra sýna sem greindust 24. sept var og þann 25. sept vegna viðburða var enginn," sagði Ingibjörg í svari við fyrirspurn Fótbolta.net.

Hún sagði að einnig hafi einkafyrirtæki staðið fyrir hraðprófum en hún hafði ekki upplýsingar um þau. Varðandi heildartöluna þá væru í þeim tölum bæði ferðasýni, þegar fólk er á leið úr landi og viðburðasýni.

Gekk ótrúlega snuðrulaust fyrir sig
Haraldur Haraldsson framkvæmdastjóri Víkings sagði að vel hafi gengið að yfirfara hraðprófin þegar áhorfendur mættu á leikinn.

„Við vorum fyrst til að nota nýtt app til að skanna QR kóða og það gekk rosalega vel að nota það," sagði Haraldur við Fótbolta.net.

Hann sagði að í ljósi þess hversu vel hafi gengið hjá Víkingum hafi nokkuð verið um símtöl frá viðburðarhöldurum sem vilja horfa til framkvæmdar þeirra og hafa spurst fyrir um ferlið.

„Þetta gekk ótrúlega snuðrulaust fyrir sig. Við vorum í sambandi við landslæknisembættið og Víði Reynisson og það var almenn ánægja með framkvæmdina," sagði Haraldur.

Engin hraðpróf í bikarúrslitaleiknum
Víkingur mætir ÍA í úrslitaleik Mjólkurbikars karla 16. október næstkomandi á Laugardalsvelli en þá mun ekki þurfa að styðjast við hraðpróf. Alls eru tíu 500 manna hólf í aðalstúkunni auk heiðursstúkunnar og ef til þess kemur er auðvelt að opna hina stúkuna.
Athugasemdir
banner
banner
banner